Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Eysteinn Jónsson í 1.-3. sæti hjá Framsókn
Þriðjudagur 17. febrúar 2009 kl. 10:51

Eysteinn Jónsson í 1.-3. sæti hjá Framsókn

Ég undirritaður: Eysteinn Jónsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ, hef ákveðið að gefa kost á mér í fyrsta til þriðja sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.

Ég er 38 ára gamall, þriggja barna faðir, með meistaragráðu (M.sc.) í rekstrarverkfræði frá Álaborgarháskóla en einnig er ég lærður fiskiðnaðarmaður frá Fiskvinnsluskóla Íslands. Þá hef ég undanfarna tvo vetur lagt stund á meistaranám í viðskiptastjórnun (MBA) við Háskólann í Reykjavík og mun ég að öllu óbreyttu útskrifast þaðan 30. maí n.k.

Ég hef komið víða við í atvinnulífinu og hef ég m.a. starfað við fiskvinnslu bæði til sjós og lands. Ég var aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra frá árinu 2003 til 2007, en þar áður var ég sérfræðingur á fyrirtækjasviði Sparisjóðsins í Keflavík til fjögra ára.

Að mínu mati er forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar sem tekur við að loknum kosningum að snúa hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Besta leiðin til þess, er að nýta náttúruauðlindir landsins- og virkja hugvit og dugnað íslensku þjóðarinnar til atvinnu- og verðmætasköpunar.
 
Skapa verður stöðugleika í hagkerfinu, styrkja krónuna og lækka vexti sem er besta leiðin til að endurreisa íslensk heimili og fyrirtæki. Lágmarka verður skaða ríkissjóðs af völdum bankahrunsins og koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum að ríkissjóður taki á sig skuldir gömlu íslensku bankanna.

Ég tel að hugsjónir og gildi Framsóknarflokksins, sem byggja á jöfnuði og samvinnu allra séu best til þess fallin að leiða þjóðina útúr þeim ógöngum sem hún er komin í.

Ég er kvæntur Rakel Þorsteinsdóttur grunnskólakennara í Grunnskóla Sandgerðis.  


Reykjanesbæ,
16.02.09
Eysteinn Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024