Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Eylandið Ásbrú
  • Eylandið Ásbrú
    Steinþór Jónsson, hótelstjóri.
Mánudagur 18. janúar 2016 kl. 07:00

Eylandið Ásbrú

Auglýsing í framhaldi af áramótaskaupi sjónvarpsins þar sem Ásbrú / Kadeco óskaði okkur landsmönnum gleðilegs nýs árs, ásamt stærri fyrirtækjum landsins sem senda svona kveðju á þessum auglýsingatíma í sjónvarpi, vakti athygli mína.
 
Af hverju er eitt hverfi í sveitarfélaginu mínu farið að senda svona kveðjur ítrekað eitt og sér? Hvergi kom fram að Ásbrú væri hluti af Reykjanesbæ og staðsett þar. Þetta hverfi er líka komið með sérstakan Ásbrúardag og þá hljóta næst að koma Keflavíkurdagar, Njarðvíkurdagar og Hafnardagar. Árvissir viðburðir þar sem fyrirtæki og brautryðjendur í hverju hverfi fyrir sig fái jákvæða umfjöllun og hrós fyrir dugnað og einstaklingsframtak.
 
Á sínum tíma þegar herinn fór var tekin ákvörðun um að nýta það húsnæði sem hann skildi eftir sig fyrir svæðið öllum til heilla. Margir voru ósammála þeirri ákvörðun og margir hafa bæst í þann hóp. Staðreyndin er hins vegar sú að ekki verður aftur snúið. Því þurfum við bæjarbúar að fá að vera með, vera upplýstir og vita hvenær eitt hverfi í bænum okkar hættir að vera rekið af sérstöku þróunarfélagi og öll hverfin fari að vinna saman. Eða á Hafnargatan að halda áfram að drabbast niður þangað til miðbærinn með þeirri verslun sem þar er ennþá, vegna dugnaðar og þrautseigju eiganda, rekstraraðila og starfsfólks, færist í heilu lagi í nýjasta hverfi bæjarins - Ásbrú.
 
Kannski er þetta allt í góðu og undirritaður að misskilja aðferðafræðina, en ef svo er þá tel ég að kominn sé tími til að upplýsa okkur bæjarbúa betur og útskýra verkefnið. Er ekki kominn tími á fund með bæjarbúum þar sem spilin eru lögð á borðið og upplýst hvenær og hvernig uppbygging á Ásbrú muni skila bænum í heild ávinningi. Nýjar fréttir um fjölgun íbúa, nýjar íbúðir og nýtingu húsnæðis virðast allavega ekki koma frá kosnum fulltrúum Reykjanesbæjar.
 
Ég skora á þá sem settu þessa fallegu kveðju í loftið að boða til fundar við bæjarbúa, og þá er ég að tala um íbúa Reykjanesbæjar en ekki bara Ásbrú.
 
Ásbrú getur ekki og má ekki vera eyland í bænum okkar frekar en Helguvík, Hafnir, Njarðvík eða Keflavík.
 
Steinþór Jónsson, hótelstjóri
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024