Eyjólfur Helgi Þórarinsson – aldarminning
Þegar lífshlaup Eyjólfs Helga Þórarinssonar, afa Eyja, er skoðað í tilefni þess að heil öld er liðin frá fæðingu hans, áttar maður sig betur á hversu mikill uppfinningamaður hann var. Hann var stórhuga og framsýnn, hafði sterkan persónuleika og var á mörgum sviðum langt á undan sinni samtíð.
Afi Eyji var fæddur 26. nóvember 1918 í Keflavík. Foreldrar hans voru Þórarinn Eyjólfsson, vélstjóri og síðar trésmiður, og Elínrós Benediktsdóttir, ljósmóðir.
Hann fékk barnaskólamenntun í Keflavík, nam rafvirkjun á Akureyri og rafvélavirkjun eftir að hann fluttist aftur suður og tók sveinspróf í þeirri grein árið 1963. Hann var sjálfmenntaður tungumálamaður og las þau erlendu tæknirit sem hann komst yfir. Hann teiknaði og byggði mörg íbúðarhús á Suðurnesjum og var frumkvöðull í því að setja geislahitun í íbúðarhús.
Eyjólfur var einn af stofnendum Keflavíkurverktaka, stjórnarformaður rafmagnsdeildarinnar um níu ára skeið, stjórnarformaður Ramma hf. og formaður Rafverktakafélags Suðurnesja. Þá var hann virkur félagi í Frímúrarareglunni og hvatamaður að stofnun Sindra, stúku innan hreyfingarinnar, með aðsetur í Keflavík.
Fyrirtæki hans Alternator hf. framleiddi alla tíð rafala (alternatora) og aðrar rafvélar auk almenns viðhalds rafvéla. Við framleiðsluna var beitt nýjum hugmyndum og aðferðum sem Eyjólfur og starfsmenn hans útfærðu og þróuðu í samvinnu við erlenda aðila sem luku miklu lofsorði á tæknihugmyndir hins íslenska hugvitsmanns og samstarfsmanna hans.
Lokaverkefni Eyjólfs, sem honum entist ekki ævin til að klára, var þróunarverkefni, rafeindastýrður riðstraumsrafall óháður snúningshraða aflvélar. Þennan rafal hafði Eyjólfur hugsað sér sem framtíðarlausn fyrir fiskiskipaflotann. Á þessum tíma skiptist hann á hugmyndum og búnaði við erlend fyrirtæki og enn í dag eru tæknihugmyndir hans notaðar í hraðastýringu á rafmótorum.
Eiginkona Eyjólfs var María Hermannsdóttir og eignuðust þau fimm börn; Eydísi, Elínrósu, Guðrúnu, Þórarinn og Önnu Maríu. Fyrir átti Eyjólfur dótturina Elsu Lilju.
Við horfum til baka og minnumst afa Eyja með hlýju á 100 ára afmælisdegi hans. Hann var tíður gestur á heimili okkar, þáði oftar en ekki kaffitár með molasykri og miðlaði af visku sinni til okkar.
Það var ómetanlegt á heimili, þar sem börnin voru fjögur, pabbinn á sjó og móðirin sá um heimilið, að eiga góðan afa. Afa sem ávallt var til staðar. Þetta var á þeim árum þegar allt var að gerast í Keflavík. Keflvískar hljómsveitir voru vinsælar, fótboltaliðið sigursælt, útgerð í blóma auk mikilla áhrifa frá veru hersins á vellinum.
Í minningunni var stutt í húmorinn og gamansemi þó svo traust og þolinmæði væru einkennandi í fari hans. Hann var kletturinn hennar ömmu sem saknaði hans fram á sinn síðasta dag. Eyjólfur lést 30. maí 1987.
Í þakkarkveðju frá aðstandendum til þeirra sem fylgdu afa Eyja var notast við ljóðlínur Gunnars Dal.
Það skilur enginn augnablikið, fyrr en það er farið.
Það skilur enginn nýja sköpun, fyrr en henni er lokið.
Og enginn þekkir stund hamingjunnar, fyrr en hún er liðin.
Minningin um einstakan uppfinningamann og góðan afa lifir með okkur um aldur og ævi.
María, Hafdís, Björg, Guðni.