Eyjólfur Gíslason - minningarorð

Nú þegar ísköld norðanáttin skellur dögum saman á land við ystu strönd og flasir, syngur hástöfum í ljóskeri Lýðveldisvitans á Garðskaga. Í léttúð prísa Garðmenn sig sæla yfir skjólinu sem vitinn veitir lágreistri byggðinni sem stendur á gjöfulum sverði upp af vörum við ströndina við fengslæ fiskimið.
 
Eyjólfur Gíslason var 4 ára þegar hann fékk skjól hjá fósturfjölskyldu sinni í Presthúsum en hann var tólfta barn foreldra sinna, en móðirin lést af barnsförum fjórtánda barnsins. Eyji var aðeins 2ja ára þegar hann fékk storminn í fangið og systkinahópurinn dreifðist á heimilin í nágrenninu þegar faðirinn veiktist af berklum og fór á Vífilstaði næstu 20 árin.
 
Sem barn kynntist hann þakklætinu, heiðarleikanum og trúnni á Guð almáttugan sem voru undirstöður að lífi hans til lokadags. Þessar þrjár stoðir voru grunnurinn að lífi þessa sterka og trúaða manns sem ól allan sinn aldur og fjölskyldu sinnar í Garðinum. Hann var stoltur af uppruna sínum, elskaði Garðinn og allt sem honum tengdist. Eyji og Helga eignuðust 8 börn, fjölskyldan býr af reynslu föður síns og þau standa vörð hvort um annað. Mikilvægast er heilsteypt fjölskylda en ólíkt foreldrum sínum hefur honum auðnast að sjá börnin sín vaxa úr grasi úr þeirri  frjósömu mold sem þau öll tilheyra.
 
Eyjólfur er stolt síns uppruna og gekk í svita sinnar sveitar lífsleið Garðmannsins. Vann í fiski frá unga aldri, stundaði sjómennsku á aflaskipum, ók vörubílum, vann á Vellinum og tók á móti Frank Sinatra. Margverðlaunaður heiðursfélagi fyrir afrek sín á sviði knattspyrnunnar hjá Víði og atvinnurekendum sínum þegar hann bjargaði skrúfuþotu Loftleiða frá stórtjóni. Já hann var gæfumaður sem reis af vellinum eins og Garðskagavitinn og veitti mörgum skjól.
 
Við Sigga vorum ein þeirra sem nutum þess að vera í skjóli hans og Helgu frá fyrsta degi í Garðinum. Vorum sem hluti af fjölskyldunni og þeir eru ófáir morgnarnir síðustu 8 árin sem við höfum notið þess að mæta í morgunkaffi í Kríulandinu. Þangað koma börnin, barna, og barnabörn og við fósturbörnin og ekki var plássið alltaf mikið þegar 10-15 manns mættu í hlaðborð á laugardagsmorgni. En þessi stóri armur kærleikans sem bjó á þessu heimili tók á móti öllum og þessi ótrúlega fjölskyldustemning er óborganleg fyrir uppeldið og stórt hjartað tók endalaust við.
 
Nú er stóllinn hans auður þar sem hann sat og brosti af gleði eins og tungl í fyllingu. Eyji gladdist að sjá niðjar sínar njóta þess að eiga mömmu og pabba, afa og ömmu, nokkuð sem hann fór á mis við í sínu lífi. Eyjólfur var ekki margmáll, sjúkdómurinn sótti á og samskiptin voru meira bros og hlýtt augnaráð. Líkaminn var búinn og dauðinn var líkn sem hann þráði að lokum. Eftir situr minningin um skjólið frá leiðarvita sem bar okkur að kærleika lífsins við eldhúsborðið í Kríulandinu. Þar leiddi hjónin Helga og Eyjólfur fjölskylduna saman svo þau færu aldrei á mis við æskudraum hans um að eiga líf með foreldrum sínum. Það líf eignuðust þau öll. Við Sigga erum þakklát fyrir skjólið og vottum Helgu og fjölskyldunni allri samúð.
 
Ásmundur Friðriksson og Sigríður Magnúsdóttir