Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Evran og afnám verðtryggingar
Þriðjudagur 24. febrúar 2009 kl. 16:07

Evran og afnám verðtryggingar


Eftir Björgvin G. Sigurðsson, þingmann Samfylkingarinnar og form. Efnahags- og skattanefndar Alþingis.  

Eftir þunga þögn í fimmtán ár eru íslenskir stjórnmálaflokkar að vakna til lífsins um þann alvarlega bráðavanda sem við stöndum frammi fyrir í gjaldmiðilsmálum. Gjaldmiðilskreppan hófst í mars í fyrra með hruni krónunar um 30% á einum degi. Þar með var morgunljóst að þjóðin stefndi inn í alvarlegan vanda í efnahagsmálum sem síðar leiddi til efnahagshrunsins í september.

Samfylkingin tók afstöðu í málinu árið 2002 með því að taka á stefnuskrá sína að sækja um aðild að ESB. Gjaldmiðilsmálið er brýnasta mál okkar sem þjóðar og því ber okkur skylda til að leiða það til lykta. Þögn flokkakerfisins um Evrópumál tengist ótta flokkanna við að gera Evrópumálin upp í skugga átaka því flestir gera sér grein fyrir því að í rauninni eigum við einungis tvo kosti í gjaldmiðilsmálum; núverandi fyrirkomulag um aðra tilraun með fljótandi krónu eða aðild að ESB og Myntbandalagi Evrópu.

Það voru stór og dýrkeypt mistök síðustu ríkisstjórnar að setja Evrópumálin til hliðar. Við því vöruðum við mörg. Örmynt í umhverfi landamæraleysis á fjármálamörkuðum og stórs fjármálakerfis bar alltaf hættuna í ber. Það blasti við öllum og við hrun krónunnar fyrir að verða ári síðan var þessi háski öllum ljós.
Leiðin til þess að endurheimta efnahagslegt fullveldi þjóðarinnar og koma okkur út úr vandanum felst tvímælalaust í því að mínu mati að sækja um aðild að ESB. Með því móti skapast strax samningsstaða um aðkomu ESB tafarlaust að styrkjar stöðu krónunnar þar til formleg tenging krónu og Evru kemst á. Þetta er stærsta einstaka verkefni stjórnmálanna og það má ekki gerast að í ótta sínum við átök þaggi þeir flokkar sem málið flýja það niður í aðdraganda kosninga.
Afkoma allra íslenskra heimila og fyrirtækja hvílir á því hvaða afstöðu flokkar og kjósendur taka til Evrópumálanna í kosningum vorsins. Stöðugur gjaldmiðill, afnám verðtryggingar og lágt vaxtastig eru án vafa mikilvægustu baráttumál dagsins í dag. Þau nást ekki fram nema með gjaldmiðilsbreytingum.

Munurinn á krónukjörum og Evru

Best er að taka dæmi um kostnaðinn fyrir venjulegt fólk við að halda úti minnsta sjálfstæða gjaldmiðli í heimi. Kosnaður sem felst í óstöðugu gengi, viðvarandi háum vöxtum og verðtryggingunni. Skýrt dæmi um þennan mun er kostnaður við að taka húsnæðislán á Evrukjörum annarsvegar og íslenskum hinsvegar. Niðurstaðan er afgerandi enda munar heilum 50 milljónum á því sem greitt er meira af íslenska láninu en láni í Evrum.
Húsnæðiskaupandinn sem tekur lán á krónukjörum þarf að borga heilum 50 milljónum króna meira á 40 ára lántökutíma af 15 milljóna láni en sambærilegu láni á Evrusvæðinu. Dæmið rek ég hér á eftir og er það afar hóflega sett upp. Auðvelt er að gefa sér forsendur sem eru talsvert mikið verri en þetta, ekki síst út frá núverandi verðbólguástandi. Til að framkvæma samanburð á því hvernig er að vera á húsnæðislánamarkaði á Íslandi og á Evrusvæðinu þá er það hægt með einföldum hætti í reikningsvél. Slegið er inn forsendum um lán sem eru á vöxtum og verðbólgu Evrusvæðisins, merkt við jafnar afborganir, sett inn 15 milljónir og því næst 3% vexti (hægt að fá lægri vexti), veljið óverðtryggt lán og 480 gjalddaga.
Neðst kemur upphæð íslenska lánsins sjálfkrafa. Veljið t.d. 3,5% verðbólgu, gætið þess að velja 40 ár og þá blasir munurinn við:



Það munar semsagt 50 milljónum króna í kostnaði fyrir húsnæðiskaupandann eftir því hvort verslað er húsnæði á Íslandi eða í Evrópu. Mestu munar um verðtrygginguna sem ekki þarf að nota á stöðugan lágvaxtagjaldmiðil sem spornar sjálfkrafa gegn verðbólgutímabilum einsog við þekkjum héðan. Í Evruláninu hefst þá þegar niðurgreiðslan af höfuðstól og sé vegið saman við hækkun á tekjum síðar í lífinu þá er algengt að lánið fari frá því að vera cirka 20% af ráðstöfunarstekjum niður í 8%.  Samanborið við okkar verðtryggðu hávaxtalán í verðbólguskoppinu þá halda afborganir sér í sömu hæðum alla tíð.
Auðvitað fylgja aðild ókostir og  ekkert er einfalt í þessum málum. En munurinn er mikill hvað gjaldmiðilsmálin viðkemur. Það er ótvírætt en mikilvægt er að varpa upp myndun sem þessum um raunverulegan mun á því að vera með stöðugan lágvaxtamiðil og enga verðtryggingu eða það fyrirkomulag sem við búum við nú.
Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður og form. Efnahags- og skattanefndar Alþingis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024