Evran er eina vitið
Umsókn um aðild og innganga í ESB flýtir fyrir uppbyggingu íslenska hagkerfisins. Ákvörðunin um umsókn sendir skýr skilaboð til umheimsins um að Ísland vilji vera hluti af ESB og að við hyggjumst ná þeim efnahagslega stöðugleika sem ESB gerir kröfu um.
Í aðildarviðræðum við ESB ætti að leita eftir því að Ísland fengi sem fyrst, á umsóknarferlinu, sérstakan stuðning við gengi íslensku krónunnar vegna þess vanda sem við glímum við hér á landi - líkt og víðast hvar annarsstaðar. Við inngöngu í ESB fengi Ísland aðild að Evrópska gengiskerfinu (ERM II) en það kerfi veitir stuðning til að halda gengi gjaldmiðilsins innan tiltekinna marka. Aðild að þessu kerfi er nú forsenda þess aðildarríki geti gengið inn í myntsamstarfið og tekið upp evru. Þá þarf Ísland að uppfylla hin sk. Maastricht¬skilyrði um efnahagslegan stöðugleika en undanþágur hafa verið veittar frá skilyrðum um jöfnuð í ríkisrekstri og hámark opinberra skulda, sem hlutfalls af landsframleiðslu, ef ríki stefna í rétta átt. Með samningi okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur stefnan verið tekin í rétta átt og því er ekki ólíklegt að víkja mætti frá einhverjum Maastricht¬skilyrðanna sem flýta myndi aðild Íslands að myntsamstarfinu.
Mikilvægt er að átta sig á því að gjaldmiðillinn og raunar allt íslenskt efnahagslíf nýtur jákvæðra áhrifa af ákvörðun um aðild að ESB. Jákvæð áhrif ættu að koma í ljós um leið og ósk um aðildarviðræður kemur fram og búast má við að þau aukist eftir því sem lengra líður á umsóknarferlið.
Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru er velferðarmál fyrir okkur Íslendinga. Það að eiga kost á húsnæðisláni með 3% vöxtum og föstum afborgunum skiptir allar fjölskyldur máli. Fyrirtækin í landinu geta ekki heldur, frekar en heimilin, staðið undir því háa vaxtastigi sem við búum við og munum búa við með íslensku krónuna. Háir vextir éta hratt upp eigið fé skuldsettra fyrirtækja og kemur í veg fyrir að þau geti sinnt nauðsynlegu hlutverki sínu við uppbyggingu atvinnulífsins.
Enginn vafi er á því að aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópusambandins getur orðið okkur eins konar akkeri við endurreisn efnahagslífsins. Við eigum því að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið sem allra fyrst og leggja síðan drög að aðildarsamningi í dóm kjósenda.
Anna Margrét Guðjónsdóttir
forstöðumaður í Brussel
Höfundur skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi