Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

ESB er ekki ógn við sjávarbyggðir
Miðvikudagur 8. apríl 2009 kl. 16:29

ESB er ekki ógn við sjávarbyggðir

Í hugum Evrópusambandsins er fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga til fyrirmyndar og nú, þegar endurskoðun á sjávarútvegsstefnu sambandsins stendur yfir, leitar sambandið í smiðju okkar í þessum efnum. Eftirlit okkar þykir líka til eftirbreytni sem og ýmislegt annað tengt sjávarútvegi enda erum við Íslendingar stórþjóð á sviði fiskveiða og vinnslu í hugum Evrópubúa og því sóst eftir þekkingu okkar. Þannig er verið að undirbúa að íslenskur sérfræðingur aðstoði framkvæmdastjórn ESB við endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar en þeirri vinnu á að vera lokið árið 2012.

Markmið hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB er að auka framleiðni, tryggja sjómönnum sanngjörn lífskjör, stuðla að jafnvægi á mörkuðum, tryggja stöðugt framboð og loks að tryggja neytendum sanngjarnt verð. Stefnan byggir ekki á sameiginlegu eignarhaldi yfir auðlindinni heldur sameiginlegri nýtingu hennar og samráði við ákvörðun aflamarks, þ.e. sjávarútvegsráðherrar aðildarríkjanna ákveða í sameiningu aflamark einstakra ríkja. Þá ákvörðun byggja þeir m.a. á upplýsingum sem fást með víðtæku samráði við sk. svæðisbundin ráð sem í sitja fulltrúar útgerða, sjávarbyggða, umhverfissamtaka og vísindamanna. Aðildarríkin ákveða síðan sjálf hvaða kerfi þau nota við ráðstöfun á sínum landskvóta. Aðeins Danmörk og Holland hafa tekið upp kerfi með framseljanlegum kvóta, líkt og Íslendingar, en flest aðildarríki ESB tengja útgerð við sjávarbyggðir með tryggum hætti og heimila ekki framsal afla.

Samkvæmt reglunni um hlutfallslegan stöðugleika á hvert aðildarríki ESB rétt á að fá ákveðinn hluta af heildarkvóta sambandsins á grundvelli veiðireynslu. Reglan felur í sér að við aðild Íslands að ESB myndu aðrar þjóðir ekki fá veiðiheimildir á Íslandsmiðum, enda engri veiðireynslu erlendra skipa fyrir að fara á síðustu árum. Raunar er reglan líka ein af grundvallarreglum í skiptingu deilistofna um allan heim og mun hún því gilda, líkt og hún gerir í dag, þegar kemur að því að semja um veiðar Íslendinga úr sameiginlegum deilistofnum ESB. Énginn vilji er til þess meðal aðildarríkja ESB að breyta þessari reglu.

Ýmsir hafa áhyggjur af hugsanlegu kvótahoppi, þ.e. að erlendar útgerðir kaupi íslensk sjávarútvegsfyrirtæki með það að markmiði að komast yfir íslenskan kvóta. Meginreglan er sú að ekki er hægt að banna fjárfestingar erlendra aðila en hægt er að girða fyrir kvótahoppið með ýmsum öðrum skilyrðum líkt og aðildarríki ESB hafa gert. Hættan af kvótahoppi ræðst nær eingöngu af innlendri löggjöf í hverju landi fyrir sig og er kvótahopp óverulegt á milli landa. Bretar ákváðu á sínum tíma að greiða leið fjárfesta að breskum sjávarútvegi sem m.a. Samherji nýtti sér til að kaupa sjávarútvegsfyrirtæki og breskan kvóta. Bretar hafa nú sett upp ýmsar girðingar til að koma í veg fyrir frekari kaup á þeirra kvóta og Skotar telja að innan við 5% af heildarkvóta þeirra sé úthlutað til erlendra aðila.

Útgerðir, sjómenn og sjávarbyggðir njóta margvíslegs stuðnings innan ESB. Má þar nefna kaup útgerða á nýjum veiðarfærum og aðlögun flota að breyttum fiskveiðum. Sjómenn njóta stuðnings til menntunar eða til að snúa sér að öðru starfi ef þeir þurfa að láta af sjómennsku. Loks má nefna ýmiskonar stuðning við sjávarbyggðir sem orðið hafa fyrir verulegu tekju- og atvinnutapi.

Þekking okkar á sviði sjávarútvegsmála er gott veganesti ef við Íslendingar förum í aðildarviðræður við Evrópusambandið.  Því getum við búist við að fá góðar viðtökur um leið og við munum standa vörð um hag þjóðarinnar.  Sá hluti viðræðnanna sem snýr að sjávarútvegi verður undirbúinn í samráði við þá sem hagsmuna eiga að gæta, þ.e. útgerðarmenn, stéttarfélög, sveitarfélög o.fl.  Niðurstöður viðræðnanna verða síðan lagðar í dóm þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar.

Anna Margrét Guðjónsdóttir
forstöðumaður í Brussel
Höfundur skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024