Erum við góð við gamla fólkið?
Skýrasti mælikvarðinn á styrk velferðarsamfélagsins er staða öldrunarmála hverju sinni. Hvernig við búum að kynslóðunum sem á hverjum tíma eru að skila langri ævi á vinnumarkaði og setjast í helgan stein. Fólkinu sem breytti Íslandi úr fátæku landi skömmtunar og skorts í framsækið og nútímalegt allsnægtarsamfélag.
Margt gott hefur gerst á vettvangi öldrunarmála á síðustu áratugum. Tvíbýli annarra en hjóna og sambýlisfólks á öldrunarheimilum heyra brátt sögunni til. Segja má að öll umgjörð og inntak samfélags eldri borgara hefur um margt tekið stakkaskiptum.
Hins vegar er sífellt verk að vinna í þessum viðkvæma og mikilvæga málaflokki. Fjölmennar kynslóðir nálgast efri árin og við verðum að tryggja að ekki myndist eða til verði viðvarandi biðlistar eftir rými á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
Ekki síst þó hinu að hinir eldri geti gengið að slíkri þjónustu í sinni heimabyggð. „Hreppaflutningar“ aldraðra um langan veg frá sínum heimahögum eiga ekki að þekkjast í sanngjörnu velferðarsamfélagi. Því þarf sífellt að standa vörð um uppbyggingu öldrunarrýma.
Af því tilefni lagði ég eftirfarandi fyrirspurn til velferðarráðherra fyrir nokkrum dögum. Á því svari verður síðan hægt að byggja við ákvarðanatöku um byggingu dvalar- og hjúkrunarheimila og dagvistun fyrir aldraða.
1. Hver er áætluð þörf fyrir dvalarrými, hvíldarrými og dagvistun fyrir aldraða á landinu öllu? Svar óskast sundurliðað eftir sveitarfélögum miðað við biðlista annars vegar og áætlaða þörf hins vegar miðað við íbúafjölda og aldurssamsetningu.
2. Hvaða áætlanir liggja fyrir um uppbyggingu á dvalarrýmum, hvíldarrýmum og dagvistun fyrir aldraða á landinu, sundurliðað eftir sveitarfélögum?
3. Hver er fjöldi dvalarrýma, hvíldarrýma og dagvistunarrýma fyrir aldraða á landinu, sundurliðað eftir sveitarfélögum?
Að mínu mati er það mikilvægt að kortleggja stöðuna og taka ákvörðun um frekari uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarrýma í Suðurkjördæmi. Þau fjölmörgu dvalar- og hjúkrunarheimili sem rekin eru á svæðinu allt frá Garðinum austur á Hornafjörð eru vel rekin og til fyrirmyndar. Þjónustu þeirra þarf að efla og gera þeim kleift að bæta við starfsemi sína.
Við viljum með sóma geta svarað spurningunni sem ég set fram í fyrirsögn um það hvort við séum góð við gamla fólkið játandi. Til þess þarf að tryggja þeim sem þess óska aðgang að góðum híbýlum í heimabyggð þegar aldur færist yfir.
Björgvin G. Sigurðsson,
þingmaður Samfylkingarinnar.