Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Erum við ekki örugglega búin að fá nóg af kísilverum?
Arnbjörn Ólafsson.
Miðvikudagur 25. október 2017 kl. 05:00

Erum við ekki örugglega búin að fá nóg af kísilverum?

Umhverfismálin eru víst kosningamál. Við ættum að vita það á Suðurnesjunum og þarf ekki annað en að benda á umræður svæðisins um kísilverið.

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur verið afdráttarlaus í afstöðu sinni gegn stóriðjunni í Helguvík. Hún hefur sýnt það í orði og borði að það verður ekki farið í fjárhættuspil með umhverfið og heilsu almennings.

Public deli
Public deli

Hún hefur líka sýnt að það er hægt að áorka meira á níu mánuðum sem ráðherra umhverfismála, en aðrir hafa gert á heilu kjörtímabili. Hérna ber hæst fjórföldun friðlandsins í Þjórsárverum og friðlýsingu Jökulsárlóns. En hún hefur einnig látið til sín taka á Reykjanesinu, bæði þegar kemur að málefnum Helguvíkur sem og í náttúruvernd.

Reykjanesið er orðinn vinsæll áfangastaður ferðamanna. Aukning gistinátta á landinu er langmest á Suðurnesjum undanfarin ár og á sama tíma hefur framboð herbergja á svæðinu aukist gríðarlega. Þetta þýðir aukinn ágang fólks á viðkvæmum svæðum á Reykjanesinu.

Í sumar lagði umhverfisráðuneytið til 160 milljónir aukalega í landvörslu á stöðum í náttúru Íslands sem eru fjölsóttir af ferðamönnum. Um er að ræða 70% aukningu landvarðavikna sem ráðið er í til skemmri tíma. Með þessu fjármagni var á dögunum hægt að ráða tvo landverði með staðsetningu á Reykjanesinu en munu sinna virku og sýnilegu eftirliti á svæðinu á næstu misserum. Er það mikið gleðiefni fyrir bæði ferðamenn og heimamenn sem er annt um náttúruna og þá viðkvæmu útivistarstaði sem eru að finna á Reykjanesinu. 

Aukin landvarsla og umsjón með viðkvæmum svæðum er ein skilvirkasta leiðin til að vernda náttúru Íslands. Ásamt afdráttarlausri stefnu gegn mengandi stóriðju engir afslættir eru gefnir þegar kemur að heilsu almennings, eru þetta lykilatriði í stefnu Bjartrar framtíðar í umhverfismálum. Því ef við komum fram við náttúru okkar og auðlindir af virðingu, verður umhverfisvænasta lausnin jafnframt alltaf sú hagkvæmasta í framtíðinni.

Umhverfismál eru svo sannarlega kosningamál.

Arnbjörn Ólafsson
2. sæti Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi