Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Eru starfsmenn stjórnkerfisins diplómatískir málaliðar fyrir eiturefnahernaðinn?
Mánudagur 4. nóvember 2019 kl. 07:27

Eru starfsmenn stjórnkerfisins diplómatískir málaliðar fyrir eiturefnahernaðinn?

Umræða um kísilverið í Helguvík, sem áætlað er að hefji rekstur á næsta ári er mikið rædd yfir kaffibollum við eldhúsborð í Reykjanesbæ. Þar spinnast oft líflegar umræður‚ þá  sérstaklega um hvernig Arion banki ætli að koma þessari verksmiðju á koppinn, þvert á vilja meirihluta íbúa. Afleiðingar kolefnissporsins og eiturefnamengunarinnar af kolabrennslunni við framleiðslu kísilsins er aðal áhyggjuefnið í umræðum bæjarbúa. 

Samræðurnar við eldhúsborðið

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þeir eru skipulagðir, einbeittir og siðblindir eins og stríðsherrar eru gjarnan og því er kolefnisspor og eiturefnadreifing algjört aukaatriði í þeirra augum,“ sagði fyrsti og saup á kaffinu.  Bætti svo við, því aðrir þögðu; „mörgum finnst eins og Arion hafi allt kerfið í hendi sér og þær opinberu stofnanir sem vald hafa til að stöðva þessa helför séu „diplómatískir málaliðar“ hjá stríðsherrunum.“  Áfram þögðu sessunautar en fyrsti hélt áfram; „á bak við eiturefnahernaðinn á íbúa Reykjanesbæjar á næsta ári, er hershöfðingjaráð, sem er stjórn Arion banka. Hersveitin sem þeir stjórna er Stakksberg og síðan eru þeir með sérsveitir til halds og trausts í sér verkefnum við hernaðaráætlun stríðsrekstursins eins og t.d. verkfræðistofuna Verkís og ráðgjafafyrirtækið Vatnaskil.“  

 „Góð samlíking,“ sagði annar við eldhúsborðið.

Skipulagsstofnun kom til tals

Fyrsti sagði: „Hersveit Stakksbergs hefur áorkað, svipað og Nazistunum í Þýskalandi á sínum tíma að virkja flestar opinberar stofnanir í landinu í sína þágu við að koma hernaðaráætluninni í framkvæmd.“ „Já þeir virðast hafa nóg af diplómatískum málaliðum í opinbera kerfinu,“ sagði annar. Þá sagði fyrsti; „fínstilling eiturefnaárásarinnar virðist í raun gerð af Skipulagsstofnun.  Liðþjálfum Stakksbergs hefur tekist að fá þá í lið með sér við að skipuleggja og samræma allt plottið og fá margar aðrar opinberar stofnanir og sérfræðinga til að liðsinna málinu.“  

Þriðji sagði þá; „þetta er ekki sanngjörn umræða strákar. Á stofnuninni er örugglega margt starfsfólk sem sinnir störfum sínum af heiðarleik og trúmennsku í samræmi við lög og reglur.“ Annar endurtók þá strax fyrri yfirlýsingu; „Já diplómatískir málaliðar, því ekki er að sjá að þeir sinni þessu af gagnrýnni fagmennsku. Eruð þið búnir að lesa ákvörðunina um matsáætlun sem Skipulagsstofnun gaf út í apríl? Það er sko léttvægt plagg og nánast loforð til Stakksbergs um að þeir megi starta verksmiðjunni þegar þeir eru búnir að ljúka því að svara atriðunum ellefu í frummatsskýrslunni.“ 

Sopið er á kaffinu og svo haldið áfram;  „Er gerð krafa um að starfsfólkið í verksmiðjunni hafi einhverja lágmarks menntun‚ t.d. um vinnuvernd í loftlags- og eiturefnafræðum? Nei. Eða um að skipstjórinn á skútunni hafi skipstjórnarréttindi eða einhverja þekkingu á rekstri og stjórnun kísilverksmiðju? Ekki orð um hvaða kunnátta eða menntun þurfi að vera til staðar um nokkurn hlut á svæðinu. Þeir hjá vinnueftirlitinu munu eflaust athuga hvort lyftara maðurinn hafi lyftararéttindi, punktur basta, málið afgreitt.“ 

Þriðji vildi áfram bera í bætifláka; „Skipulagsstofnun leggur mikla áherslu á útblástur og loftgæði frá verksmiðjunni.“ Svo dró hann upp símann sinn og gúglaði ákvörðunina frá því í apríl. „Sjáiði, hér er það, þeir tala um loftgæði í lið sex og sjö.“ Hann lét símann ganga milli manna.

  1. Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir og leggja mat á hver áhrif breytilegs afls ofna eru á loftgæði umhverfis verksmiðjuna líkt og Umhverfisstofnun bendir á. Þá þarf jafnframt að greina frá því hvernig brugðist verður við þegar ofnar eru ekki á fullu álagi og mestar líkur eru á lyktarmengun.
  2. Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir því hvaða áhrif áætlaðar tæknilegar úrbætur hafa á loftgæði og styrk sem berst út í umhverfið. Ennfremur hvaða áhrif breytingar á reykhreinsivirki, útblæstri og meðhöndlun ryks hafa á efnasamsetningu útblásturs og dreifingu hans á ársgrundvelli og til lengri tíma líkt og Veðurstofa Íslands bendir á. 

„Við upplifðum þetta allt 2017 sagði fyrsti eftir lesturinn og hélt svo áfram;  „Ekki einu orði minnst á eiturefnin, bara minnst á „efnasamsetningu útblásturs og lyktarmengun og þeir vita ekkert um eðli og magn eiturefnanna sem urðu til þess að verksmiðjan var stöðvuð á sínum tíma.“ Annar bætti við; „Þeir þora ekki öðru en hlýða, enda undir heraga Aríons sem diplómatískir málaliðar.“  Fyrsti gretti sig þá, steytti hnefa og sagði svo; „Andsk….., það er fáránlegt að heilt bæjarfélag þurfi aftur að verða ofurselt nýjum kolabrennslu bröskurum og sérstaklega að stjórnkerfið spili með þeim í einu og öllu. Sama sagan mun endurtaka sig, því þeir kunna ekkert frekar en þeir fyrri að reka kísilverksmiðju.“

Reykjanesbæ 10. okt. 2019,

Tómas Láruson.