Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Eru leikskólarnir nokkuð á villigötum?
Miðvikudagur 23. maí 2018 kl. 09:00

Eru leikskólarnir nokkuð á villigötum?

Framtíðarsýn Reykjanesbæjar frá árinu 2011 hefur bylt leikskólastarfi í Reykjanesbæ svo um munar.  2 ára gömul börn eru farin að læra stafina og þekkja mörg hver málhljóð þeirra. Nám og þekking barnanna eykst svo ár frá ári þar til leikskólagöngunni lýkur.
 
Á sama tíma hefur metnaður og kröfur foreldra í garð leikskólanáms aukist. Foreldrar kynna sér meira starf leikskólanna áður en barnið þeirra hefur sína leikskólagöngu og vill að tíma barnsins sé vel varið við leik og nám.
 
Í ályktun um velferð og líðan barna, sem 7. aðalfundur Félags leikskólakennara haldinn 14. og 15. maí 2018 lagði fram, er þess krafist að hugað verði betur að velferð og líðan leikskólabarna. Þar kemur fram að aðstæður í leikskólum geti verið streituvaldandi og þá sérstaklega tekið fram að börnin dvelji yfirleitt of lengi í leikskólanum, en flest börn dvelja þar 8-9 klst. á dag, og að aðstæður í leikskólum séu ekki nógu góðar. Til að breyta þessu þurfi að stytta dvalartíma og minnka barnahópana. Leikskólabörn eru með lengstu viðveru allra skólastiga eða til dæmis 45 vikur á móti 37 vikum hjá grunnskólabörnum. Aðstæður í leikskólum þarf svo að bæta bæði fyrir börn og kennara til dæmis með því að fækka börnum í rými og auka undirbúning kennara og fagmanna í starfi. Einnig þarf að fjölga kennurum sérstaklega ef og þegar barnahópurinn yngist.
 
Getum við gert eitthvað til að fá fleiri menntaða kennara? Við gætum reynt að bjóða betur... betur en hinir gera. Kýlum á þetta og látum ekkert stoppa okkur til að vera besta sveitarfélagið í málefnum leikskólanna. Áfram við öll, börn og fullorðnir.
Reykjanesbær hefur, þrátt fyrir mikinn niðurskurð frá árinu 2007, yfir að ráða frábærri menntastefnu og metnaðarfullum og stoltum leikskólakennurum. Leikskólar í sveitafélaginu hafa vakið athygli um land allt og fengið í  heimsókn til sín kennara og leiðbeinendur frá fjölmörgum leikskólum á Íslandi. Höldum áfram að halda utan um faglegt og frábært starf í leikskólum Reykjanesbæjar. 
 
Höldum áfram að byggja upp gott og öflugt starf í leikskólunum okkar með hag og nám barnanna í fararbroddi. Fjölgum menntuðum leikskólakennurum og sérfræðingum í leikskólum. 

Metum börnin meira en atvinnulífið og búum þeim gott námsumhverfi með fagmenntaða kennara og sérfræðinga í góðu starfsumhverfi. 
 
Við skorum á frambjóðendur í sveitarstjórnar kosningum 2018 að hafa velferð og líðan leikskólanemenda í fyrirrúmi. 
 
Anna Lýdía Helgadóttir
leikskólakennari og fulltrúi í skólamálanefnd Félags leikskólakennara

Ragna Kristín Árnadóttir
leikskólakennari og formaður 9. deildar Félags leikskólakennara
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024