Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

  • Eru kröfur verkafólks þess valdandi að allt fer á hvolf?
    Sandgerði.
  • Eru kröfur verkafólks þess valdandi að allt fer á hvolf?
Föstudagur 20. febrúar 2015 kl. 09:00

Eru kröfur verkafólks þess valdandi að allt fer á hvolf?

Magnús S Magnússon Formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis.

Eru kröfur verkafólks í væntanlegum samningaviðræðum þess valdandi að allt fer á hvolf í samfélaginu? Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis er aðili að SGS og fer samninganefnd SGS með samningsumboð fyrir félagið.

Aðeins er farið fram á það í kröfugerð SGS að fólk geti skrimtað af launum sínum. Kröfugerð SGS hljóðar upp á að við verðum búin að ná lægstu launum upp í lágmark 300.000 kr. innan þriggja ára úr þeirri smán sem er 201.137 kr. nú í dag. Einnig er mjög sanngjörn krafa hér á svæðinu að greiddur sé lágmarks bónus í fiski, hækkun á bæði desember- og orlofsuppót, tekin inn ný starfsheiti ásamt lagfæringu á launatöflu.  

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þegar þessar sanngjörnu kröfur voru tilkynntar Samtökum atvinnulífsins fékk verkafólk þá köldu gusu í andlitið að ekki væri hægt að verða við svo óbilgjörnum kröfum sem farið væri fram á, það myndi setja allt samfélagið á hvolf. Mitt hyggjuvit segir að hækkun á lægstu launum væri ekki til annars en að auka hagvöxt og næra hagkerfið þar sem verkafólk hefur ekki annarra kosta völ en að versla inn fyrir þá aura sem þeir fá. Þetta minnir mann á að þegar maður horfði á bíómyndir frá suðurríkjunum varðandi þrælahaldið og þeirra rétt til að draga fram lífið þó ekkert væri framkvæmt og gert nema að þrælarnir væru virkir þátttakendur.

Það var markmið síðustu samninga að það ætti að nýta samningstímann í að marka stefnu um laun og samningsumhverfi eins og á hinum Norðurlöndunum. Nú þegar á að gera tilraun til að nálgast laun eins og er hjá verkafólki á hinum Norðurlöndunum, sem eru 30% hærra en hér á landi, fer allt á annan endann og Samtök atvinnulífsins hafna öllum kröfum og segja að ekki sé um samningsgrundvöll að ræða vegna óbilgjarna krafna. Þetta er mjög undarleg afstaða af þeirra hálfu þar sem þessi aðferðarfræði var þeirra hugmynd. Eða átti bara að tala um launahækkanir eins og á hinum Norðurlöndunum í prósentum og færa yfir á íslenskt verkafólk án tillits til þess hve margar krónur væru innifaldar í þeirri prósentuhækkun?

Það hefur verið haldinn einn samningafundur, 13. febrúar, undir stjórn sáttasemjara og voru árangurlausar viðræður á honum en boðað var til næsta fundar þann 19. febrúar n.k. Samninganefnd SGS fundaði strax á eftir og var að meta hvernig staðan í viðræðunum væri og eins hvernig ætti að bera sig að á næstunni. Mikil eining og samhljómur var inni í samninganefndinni.

Félögin innan SGS eru að  hefja undirbúning  að aðgerðum  til vinnustöðvunar til að fylgja eftir sínum sanngjörnu kröfum og sýna vinnuveitendum fram á að verkafólki á íslenskum vinnumarkaði er fúlasta alvara um kauphækkanir.

Hér á svæðinu eru nokkur fyrirtæki sem hafa hlotið nafnbótina fyrirmyndarfyrirtæki og eru forsvarsmenn þessara fyrirtækja stoltir af. En það skyldi þó ekki vera að þessir sömu aðilar hafi starfsfólk sem á skilið að fá einhverja hlutdeild í afkomunni í formi launahækkana?

Formaður Verkalýðs og sjómannafélags Sandgerðis skorar á atvinnurekendur á íslenskum vinnumarkaði að gera nú gangskurð í því að verkafólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum án þess að þurfa að vinna svo og svo mikla yfirvinnu með því að verða við kröfum SGS og ganga til samninga án átaka.

Magnús S Magnússon

Formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis.