Eru börnin í Reykjanesbæ fóðruð í grunnskólunum?
Öll börn í Reykjanesbæ fá sama mat í skólunum og hann kemur frá Skólamat. FFGÍR, foreldrafélög grunnskólanna í Reykjanesbæ, hitti starfsmenn Skólamatar í apríl og fór yfir matseðla, næringarinnihald, stefnumótun, framkomu starfsmanna mötuneyta og almenna matarmenningu í skólunum. Hver og einn skólastjóri ákveður hvernig hann vill hafa matarmenninguna í sínum skóla.
Matarmenning er stór partur í okkar lífi og má alveg skoða að búa til betri matarmenningu með börnunum okkar. Flestir eru ánægðir með matinn sem börnunum er boðinn en það er aldrei hægt að gera öll börn ánægð. Þegar börn eru spurð að því hvaða matur sé bestur í skólunum þá nefna þau oft: grjónagraut eða fiskibollur. Það var því ánægjulegt að heyra frá starfsfólki Skólamatar að þau væru farin að framleiða fiskibollur og kjötbollur og ætla að þróa sig áfram í fleiri réttum. Einnig láta þau sérframleiða skólabjúgu með lægra natrium og meira hlutfall kjöts svo að börnin fái sem mesta næringu í stað hefðbundinna bjúga.
Það er mjög auðvelt fyrir foreldra að fá nákvæma innihaldslýsingu á matnum frá Skólamat. Þannig komum við í veg fyrir að börnin fái eitthvað sem við myndum ekki kaupa sjálf úti í búð eins og t.d fiskmarning eða mat sem inniheldur uppfyllingarefni eins og duft. Það er ábyrgð okkar foreldranna að senda börnin með hollt nesti í skólann og gefa þeim hollan mat heima. Það er líka í okkar ábyrgð að fylgjast með hvað þau fá í skólanum svo við verðum alltaf að vera vakandi og fylgjast með.
FFGÍR ætlar að funda með Skólamat einu sinni á önn og fara yfir matseðla. Allir foreldrar geta tjáð sig um matinn við sitt foreldrafélag eða beint við Skólamat og komið skilaboðum áleiðis. Foreldrar eiga að fylgjast stöðugt með. Þetta er mikilvægara heldur en margir vilja meina. Börnin borða í skólanum um 180 máltíðir á ári. Starfsfólk Skólamatar bregst við ábendingum sem þeim berast og eru alltaf að þróa og endurbæta matseðlana og framleiðsluna. Börn í Reykjanesbæ eiga kost á að kaupa á niðurgreiddu verði ávexti, grænmeti og heitan mat í hádeginu á hverjum degi skólaársins.
Börn í Reykjanesbæ eiga kost á fjölbreyttri fæðu og þau fá að borða. Það er gott til þess að vita að hugsunin á bak við Skólamat er metnaðarfull. Fóður er fyrir dýr en matur fyrir börn. Skólamatur selur okkur ekki fóður, heldur mat. Ég hvet alla foreldra barna í grunnskólum RNB að vera með börnin sín í mataráskrift, þannig tryggjum við börnunum fjölbreyttan og hollan mat.
Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
móðir fjögurra barna í leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar