Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Eru almenningssamgöngur fyrir okkur öll?
Föstudagur 10. september 2021 kl. 14:15

Eru almenningssamgöngur fyrir okkur öll?

Einhvern tíman velti ég því fyrir mér hvað fólki þætti eðlilegt verð fyrir 25 mínútna ferð með strætó. Á þessum tíma starfaði ég í Reykjavík en bý í Reykjanesbæ. Strætóferðin sjálf hentaði mér afskaplega vel, bein leið úr heimabænum nánast upp að dyrum vinnustaðarins. Afskaplega þægilegt að sitja bara í notalegheitum rútunnar og þurfa ekki að sjá um aksturinn sjálf, ekkert að stressa mig á umferðarteppu höfuðborgarsvæðisins, þvílíkur lúxus. Og stærsti ávinningurinn, í mínum huga, var sá að þessi ferðamáti væri umhverfisvænni en einkabíllinn.

Í mínum huga liggur það í augum uppi að stjórnvöld ættu að ýta undir aukna notkun almenningssamgangna. Á tímum þar sem allir stjórnmálaflokkar vilja eigna sér það að gera mest og best í umhverfismálum og keppast við að lofa því að undir þeirra stjórn muni Ísland vera orðið fullkomlega rafbílavætt sem allra fyrst, finnst mér við hafa sofnað á verðinum og misst sjónar á stóru myndinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rafbílar verða ekki til úr lofti einu saman. Framleiðsla þeirra er gífurlega mengandi og að reyna að láta umræðuna hverfast að mestu leyti um að Íslendingar skuli allir aka um á rafbílum eftir x mörg ár þykir mér gefa hreint út sagt falska mynd af stöðu mála. En hvað er þá til ráða?

Í umhverfisstefnu Sósíalistaflokksins segir meðal annars að stórbæta þurfi almenningssamgöngur og reka með því sjónarmiði að þær séu sjálfsögð þjónusta við íbúa alls landsins. Þær séu lykillinn að því að draga úr mengun en ekki reknar með því markmiði að reksturinn skili hagnaði. Að öllum íbúum landsins sé gert kleift að lifa umhverfisvænu lífi, óháð efnahag og búsetu þeirra og í því tilliti sé litið á tíðar og öflugar almenningssamgöngur sem hluta af umhverfisvernd og sjálfsagðri þjónustu við íbúa landsins.

En þá komum við að stóru hindruninni sem ég rakst á. Almenningssamgöngur eru hreint ekki gjaldlagðar á þann máta að hver sem er hafi efni á að nýta sér þær. Fyrir 25 mínútna strætóferð innan höfuðborgarsvæðisins borgar manneskja, sem engan afslátt fær, 490 krónur fyrir ferðina, 300 krónur hér í Reykjanesbæ, en fyrir 25 mínútna ferð til Reykjanesbæjar frá Hafnarfirði greiðir sama manneskja hins vegar 1.960 krónur. Mörg benda þá á hvort ekki megi fá einhvern magn­afslátt, fyrir fólk sem fer jafnvel daglega á milli? Hann myndi teljast óverulegur, örfáar krónur. Er þetta hvetjandi fyrir fólk til að nýta sér þennan annars ákjósanlega ferðamáta?

Ef þú tilheyrir ekki þeim hópum sem fá afslátt eru almenningssamgöngur hreint ekki fyrir almenning heldur fólk sem á nægan pening. Og fyrir þá hópa sem nú þegar fá afslátt er algjör lágmarkskrafa að þeir fái frítt í strætó. Hvatinn til að leggja einkabílnum og taka strætó er gjörsamlega fokinn út um gluggann. Ég hreinlega velti því fyrir mér hver hugsunin sé á bak við það að keyra hálftóma strætóa með rándýru fargjaldi um allt land. Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið mynda eitt stórt atvinnusvæði og þessi gríðarlega verðlagning á það eitt að komast til og frá vinnu er glórulaus.

Stefna Sósíalistaflokks Íslands í almenningssamgöngum er skýr. Strætó og önnur sjálfsögð akstursþjónusta, svo sem akstursþjónusta fatlaðra og sjúkrabílar skal vera gjaldfrjáls með öllu.

Unnur Rán Reynisdóttir
Höfundur skipar 5. sæti á J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðurkjördæmi.