Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ertu heiðarleg mín kæra?
Sunnudagur 5. febrúar 2012 kl. 21:29

Ertu heiðarleg mín kæra?



Heiðarleiki felst í því að eiga í samskiptum án þess að bogna eða brjóta á öðrum. Sá sem vill verða heill til orðs og æðis þarf að finna jafnvægið milli sín og samfélags. Heiðarleiki er samhljómur milli hugsjóna og aðgerða og samfélagið verður opið og gagnsætt (Gunnar Hersveinn í bókinni Þjóðgildin).

Mér hefur verið hugleikið þetta hugtak undanfarið og átt spjall við vini mína um mikilvægi þess að vera heiðarlegur. Maður opnar ekki fjölmiðla án þess að þar sé minnst á óheiðarleika, svik og pretti í einhverri mynd. En þurfum við ekki að byrja á okkur sjálfum og skoða hvaða þættir það eru í lífi okkar sem útheimta heiðarleika? Það sem einkennir líf mitt öðru fremur er að ég fæ send allskonar verkefni, svona mannbótarverkefni og þá einmitt þegar ég hef sett fram staðhæfingar eins og: auðvitað borgar sig alltaf að vera heiðarlegur þrátt fyrir að maður komist upp með annað. Þá sé ég fyrir mér hóp af siðgæðispostulum sitja saman í hóp og kalla upp yfir sig: Anna Lóa var að kasta fram heiðarleikastaðhæfingu, sendum henni eitt stykki verkefni og sjáum hvað er þarna á bak við.

Ekki leið á löngu þar til ég fékk sent slíkt heiðarleikaverkefni og þá reynir fyrst á mann. Þetta byrjaði nú allt saman með því að ég ákvað að vera ungfrú skipulögð og staðföst á þessu ári og fór með bílinn minn í skoðun í byrjun janúar. Það var smá kvíðahnútur sem fylgdi því þar sem glæsikerran er á 11. aldursári og framundan unglingsárin með tilheyrandi áhættuhegðun og óvissu. Það var því mikill léttir þegar starfsmaður bílaskoðunar sagði að ég fengi fulla skoðun en hann hefði eina athugasemd: hjólbarðarnir að framan hefðu verið settir vitlaust á, sá sem ætti að vera vinstra megin væri á hægri hlið og öfugt. Hum, þetta útskýrði margt, því mér hefur fundist ég hálf áttavillt upp á síðkastið og ekki vitað hvort ég væri að fara til hægri eða vinstri og fannst gott að fá skýringu á þessu. Ég dreif mig því á hjólbarðaverkstæðið ,,mitt“ og sagði mönnum þar á bæ að þetta væru auðvitað ekki nógu góð vinnubrögð - dekkin væru ekki rétt sett á. Þar á bæ klóruðu menn sér í hausnum, skildu ekkert hver gæti verið sekur um svona mistök og spurðu hvort ég mundi hver hafði skipt um dekkin. Ég reyndi að útskýra að ég ætti erfitt með að muna hvernig synir mínir litu út að kvöldi dags svo það væri algjörlega af og frá að ég gæti rifjað slíkt upp. Skipt var um dekkin og ég á leið inn í bíl þegar það kom hik á einn starfsmannanna og hann spurði hvort ég ætlaði ekki að borga. Þá setti ég mig samstundis í ,,stattu með sjálfri þér gírinn“ og sagði eins og var að mér þætti slíkt ekki rétt þar sem þetta væru augljóslega þeirra mistök. Það kom smá óþægileg þögn (sem reyndi á mig sem þarf alltaf að fylla andrúmsloftið með blaðri) en síðan sagði maðurinn að við skyldum þá sleppa greiðslunni. Ég var ánægð með mig og hugsaði með mér að einhvern tímann hefði ég ekki verið svona ákveðin, heldur borgað og verið svo hundsvekkt út í sjálfa mig eftir á.

Aumingjans synir mínir þurfa að sitja undir allskyns mannlífspælingum mínum og því þurfti ég að sjálfsögðu að hringja í þann eldri og deila því með honum að nú gæti hann verið stoltur af móður sinni - hún hafi svo sannarlega farið og staðið upp í hárinu á þessum köllum (greyin, voru kannski rúmlega tvítugir en sagan hljómaði skemmtilegri með því að lýsa þeim sem hóp af þroskuðum kraftajötnum sem ég hafi fellt, hvern á fætur öðrum). Sonur minn hlustaði með þolinmæði og sagði svo: en mamma, það var ég sem setti dekkin undir í vetur!! Það þyrmdi yfir mig og konan sem gleymir öllu jafnóðum gat með erfiðismunum rifjað upp þar sem sonur hennar hafði tekið þátt í sparnaðarátaki heimilisins með því að skipta sjálfur um öll dekk á flotanum í stað þess að fara á verkstæði.

Nú voru góð ráð dýr! Ég var búin að brjóta margfalt af mér því ekki nóg með að ég hafi sleppt því að borga fyrir dekkjaskiptin, ég hafði líka gefið í skyn að ófaglega hafi verið staðið að verki og sýnt með því ákveðinn hroka. Úff, mér leið hræðilega, en þurfti nokkur að komast að þessu!! Það var einmitt á þessari stundu sem mér var hugsað til siðgæðispostulanna sem sitja einhvers staðar með veðmál í gangi ,,á hún eftir að fara eftir eigin heilræðum eða lætur hún eins og þetta hafi aldrei gerst“. Ósjálfrátt leit ég til himins og kallaði: ,,ok, ok, ég er að fara niður á bifreiðaverkstæði, give me a break“.

Toppurinn á deginum var þegar ég hunskaðist inn á bifreiðaverkstæðið og muldraði fyrst hálf skömmustulega ofan í hálsmálið að ég hefði haft rangt fyrir mér þarna fyrr um daginn og væri komin til að borga skuldina. Brosið sem ég fékk á móti mér varð til þess að ég gleymdi alveg að vera skömmustuleg og gat gert grín að sjálfri mér og í stað þess að ég afsakaði mig frekar þá var slegið á létta strengi yfir þessum ,,misskilningi“ mínum. Ég labbaði út með bros á vör - leit til himins, baðaði út höndum að hætti Ítala og kallaði: ,,hvað haldið þið eiginlega að ég sé, auðvitað fór ég og borgaði“.

Þangað til næst – gangi þér vel.

Anna Lóa Ólafsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024