Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ertu búin að ÖLLU fyrir jólin?
Laugardagur 3. desember 2011 kl. 15:11

Ertu búin að ÖLLU fyrir jólin?

Þetta var í lok nóvember 1998. Fyrstu önninni í háskólanámi var að ljúka og jólin framundan. Ég sat með tárvot augun hjá ráðgjafanum og sagði að ég gæti ekki mikið meira, álagið væri að sliga mig, prófin væru framundan og var heltekin af þeirri ömurlegu tilfinningu að ég væri að bregðast drengjunum mínum sem fengju ekki að upplifa gleðileg jól vegna eigingirni minnar að setjast á skólabekk. Ráðgjafinn staldraði aðeins við það síðasta og spurði mig af hverju ég teldi jólin verða gleðisnauð. ,,Jú sjáðu til“ svaraði ég milli þess sem ég saug upp í nefið og hugsaði að ég hlyti að vera erfiðasta tilfellið hennar þennan morguninn því í þessu ástandi sá ég ekki út fyrir naflann á sjálfri mér, ,,það eru að koma jól og ég á eftir að gera ALLT og svo á ég lítinn pening“. Á þessum tímapunkti var ég að vonast til að ráðgjafinn segði mér að fresta náminu, hunskast heim til mín, hugsa um syni mína, bjarga því sem bjargað yrði, skreyta, baka, bóna og bilast, út af hátíð ljóss og friðar. Hún gerði það ekki, enda fær í sínu starfi en í staðinn leit hún djúpt í augu mér og sagði þessa yndislegu setningu ,,Anna Lóa mín, hvað er þetta ALLT sem þú átt eftir að gera?“. Hún tók fram blað og bað mig um að búa til lista þar sem ég taldi upp þetta ALLT og skoðaði það svo með mér. Fljótlega benti hún mér á að ég ÞYRFTI ekki að gera allt á listanum - ég teldi mig bara þurfa þess, sem sagt heimatilbúið vandamál. Hún lagði áherslu á að ég skipulegði tímann minn vel, tæki frá stundir þar sem ég gerði eitthvað skemmtilegt með sonum mínum, fengi aðra til að aðstoða mig og hætti að svekkja mig á hlutum sem skiptu í raun engu máli. Hún fékk mig til að sjá þetta ALLT í algjörlega nýju ljósi.

Það var í raun ósanngjarnt að klína þessum áhyggjum á syni mína, því vandamálið var ég og þau viðmið sem ég hafði sett mér varðandi gleðileg jól. Ég stóð frammi fyrir breytingum þar sem ég vissi hvað ég hafði hér einu sinni en vissi minna um það sem beið mín. Lífsstíll fyrri ára var að sjálfsögðu allt annar en námsmannsins sem ég var orðinn þar sem námslánin kölluðu á aðhald og sparnað í öllu. Hvað syni mína varðar þá gerðu þeir ekki athugasemdir þegar við bjuggum til músastiga og hengdum upp í stað ameríska ævintýrsins sem þeir voru vanir. Auðvitað hefðu þeir kosið ljósadýrð Griswold fjölskyldunnar, en litla stúdentaíbúðin þoldi bara hluta af ameríska mega-skrautinu okkar og það sama átti við um jólatréð, sem ég staðsetti uppi á borði svo það liti út fyrir að vera meira um sig. Við gátum gleymt því að reyna að dansa í kringum það (frekar svona að tvista fyrir framan) eða vera með eitthvað þema. Litla hríslan var orðin ofhlaðin á augabragði, krúttleg en minnti einna helst á græðling í tilvistarkreppu sem gat ekki beðið eftir því að verða stærri.

Auðvitað komumst við fjölskyldan í gegnum þessi jól með glæsibrag, fórum á tónleika, horfðum á Santa Claus eins og áður, keyptum jólagjafir, skrifuðum jólakort og eitthvað var líka bakað (kaupi orðið megnið af þessu í dag enda frábærir bakarar á Suðurnesjum). Stórfjölskyldan fékk lágstemmdari jólagjafir þetta árið þar sem föndrið mitt úr áfanganum Skapandi skólastarf kom sér vel og ljósmyndir í Ikea römmum leystu amerísku náttfötin af hólmi.

Þetta voru fyrstu jólin af mörgum sem voru öðruvísi en við áttum að venjast en þegar upp var staðið var það bara allt í lagi. Nýjar hefðir hafa leyst þær gömlu af hólmi, þar sem ég legg meira upp úr því að nýta tímann vel með góðu fólki, sleppi því sem er óþarfi og nýt þess sem skiptir máli fyrir mig og mína. Ég þurfti að breyta viðhorfum mínum varðandi jólin - þau EIGA ekki að vera á einhvern ákveðinn hátt heldur taka þau mið af lífi okkar og aðstæðum hverju sinni og breyttar aðstæður kalla á ný viðhorf.

Eigið yndislega aðventu.

Rún vikunnar heitir GJÖF:

Rún félagsskapar, sannur félagsskapur getur aðeins orðið milli tveggja eða fleiri einstaklinga sem eru aðskildir en þó sameinaðir.

Þangað til næst - gangi þér vel

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Anna Lóa