Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ert þú með í „Allir með“?
Fimmtudagur 3. september 2020 kl. 12:59

Ert þú með í „Allir með“?

Er vellíðan grundvallarmarkmið alls þess sem við gerum? Við viljum vissulega að öllum líði vel. Við trúum því að við komum vel fram við aðra þegar okkur sjálfum líður vel og við höfum heyrt að hamingjan sé fólgin í núinu – það að líða vel í eigin skinni á akkúrat þessari stundu.

Hvað getum við gert til þess að öllum líði vel?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Reykjanesbær fékk hugmynd!

Nú er unnið að risastóru samfélagsverkefni með það að markmiði að allir passa upp á alla og að allir hafi jöfn tækifæri til þess að tilheyra samfélaginu. Í verkefninu einblínum við á alla en horfum líka sérstaklega til þeirra sem reynist það meiri áskorun að taka þátt en öðrum. Við leggjum sérstaka áherslu á börn af erlendum uppruna og börn sem ekki eru nú þegar í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Félagsmálaráðuneytið veitti Reykjanesbæ veglegan styrk í upphafi þessa árs til þess að huga að vellíðan barna, jákvæðum samskiptum þeirra og sterkri félagsfærni. Það skyldi gert með áherslu á þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi því allt bendir til þess að samfélagsleg virkni leiði til betri líðan, jákvæðari samskipta, sterkari félagsfærni og þess að fólk sé hluti af samfélagsheildinni.

Það þarf heilt þorp til þess að ala upp barn

Svo markmiðin nái fram að ganga þurfa allir að vera með. Það þarf heilt þorp til þess að ala upp barn. Reykjanesbær ætlar nú að styðja og styrkja þetta þorp.

KVAN er fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í því að styðja fólk til að ná að virkja það sem í þeim býr og veita þeim aðgengi að styrkleikum sínum. KVAN hefur unnið mikið með vináttuþjálfun barna og fjallað um mikilvægi þess að tilheyra samfélaginu. Einmitt þess vegna eru þau réttu aðilarnir til þess að fræða, þjálfa og mennta alla sem koma að barnastarfi í Reykjanesbæ. Þau munu veita umsjónarkennurum á miðstigi hagnýtt námskeið, einnig kennurum í íslensku sem annað mál og forstöðumönnum frístundaheimila. Þau munu standa fyrir vinnustofum fyrir alla sem koma að barnastarfi í sveitarfélaginu, sama hvort um sé að ræða danskennara, skátaforingja, barnaverndarstarfsmann eða skólaliða og allt þar á milli. Í samvinnu við Sölku Sól Eyfeld munu þau jafnframt leiða fræðslu og þjálfun fyrir jafningjafræðslu sem miðuð er að nemendum 9. bekkjar. Þar að auki munu þau halda nokkra fyrirlestra fyrir starfsmenn sveitarfélagsins og félag foreldrafélaga í Reykjanesbæ.

Meginmarkmið ungmennafélaga er ræktun lýðs og lands. Bætt lýðheilsa, betri einstaklingar, betri félög og betra samfélag. Það lá því beint við að fá ungmennafélögin tvö, Keflavík og Njarðvík, til þess að leiða verkefnið áfram. Ungmennafélögin munu verkefnastýra starfinu í vetur, halda utan um allar upplýsingar og tengja önnur íþróttafélög og tómstundahreyfinguna inn í verkefnið. Þau munu jafnframt stýra spennandi kynningum á öllu íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu sem munu ekki fara framhjá neinum þegar þar að kemur.

Vel undirbúið samfélagsverkefni

Þetta stóra samfélagsverkefni hefur verið vel undirbúið og er það von Reykjanesbæjar að markmiðin nái fram að ganga. Eina leiðin til þess að svo megi verða er að allir séu með í „Það er ábyrgð okkar allra að huga vel að okkur sjálfum og þeim sem í kringum okkur eru“. Þess vegna hefur Reykjanesbær gert sáttmála sem íbúar eru hvattir til þess að gerast aðili að á vefsíðu Reykjanesbæjar. Sáttmálinn snýr að því að við einsetjum okkur að sýna hlýlegt viðmót og alúð gagnvart öllu okkar samferðafólki. Við ættum að láta okkur varða um öll börn og huga sérstaklega að þeim sem reynist það meiri áskorun að taka þátt í samfélaginu en öðrum.

Sýnum hlýlegt viðmót, hugum að fólkinu í kringum okkur af alúð og verum með í Látum okkur líða vel.

Verið velkomin í  ALLIR MEÐ!

Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjöl-menningarmála og verkefnastjóri.

Í stýrihópnum eru jafnframt:

Guðrún Magnúsdóttir,
lýðheilsufræðingur.

Hafþór Barði Birgisson,
íþrótta- og tómstundafulltrúi.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri í íslensku
sem öðru máli.

Haraldur Axel Einarsson,
grunnskólafulltrúi.

María Gunnarsdóttir,
forstöðumaður barnaverndar.