Ert þú í heilbrigðu sambandi við matinn þinn?
- Stofnun samtaka áhugafólks um MATARHEILL 12. apríl nk.
Þessa dagana vinnur áhugafólk að stofnun samtakanna MATARHEILL. Samtökin verða opinn vettvangur þeirra sem leita lausna við matarvanda sem heilbrigðisvanda. Matarheill mun standa vörð um réttindi fólks með matarfíkn og annarra sem eiga við matarvanda að stríða, hvetja til fræðslu og vinna að forvörnum. Samtökin munu vinna að viðurkenningu á matarfíkn sem sjúkdómi og stuðla að meðferðarúrræðum við hæfi.
-
Málþing um matarfíkn og átvanda verður haldið í tilefni stofnfundarins föstudaginn 12. apríl frá kl. 13:00-16:00 í stofu V101 í Háskólanum í Reykjavík.
-
Ávörp, erindi, gjörningur og umræður.
-
Sérstakir gestir:
-
Dr. Vera Tarman, MD, FCFP, CASAM, MSc, er yfirlæknir Renascent, sem er stærsta meðferðarstöð við vímuefna- og áfengisfíkn í Kanada.
-
Phil Werdell, MA, er stofnandi meðferðarstöðvarinnar ACORN. Hann hefur sjálfur átt við matarfíkn og anorexíu að stríða en viðhaldið bata frá hvoru tveggja í yfir 20 ár. Phil Werdell er þekktur og viðurkenndur sem leiðtogi og brautryðjandi í meðferð við matarfíkn og átröskun í heimalandi sínu, Bandaríkjunum.
-
-
Samtökin MATARHEILL verða stofnuð í kjölfar málþingsins, kl. 16:00.
-
Allir áhugasamir hvattir til að mæta.
Að stofnun samtakanna koma einstaklingar sem náð hafa tökum á matarvanda sínum, aðstandendur MFM-miðstöðvarinnar (meðferðar- og fræðslumiðstöðvar vegna matarfíknar og átraskana) og fleiri. Samtökin eru öllum opin.
Allir sem láta sig málið varða eru hvattir til að mæta á málþingið. Til að gerast stofnfélagi samtakanna er hægt er að skrá sig á www.matarheill.is eða á stofnfundinum.
Nánari upplýsingar má nálgast á www.matarheill.is og hjá tengiliðum:
Esther Helga Guðmundsdóttir 699 2676 [email protected]
Þorsteinn Gunnarsson 696 9234 [email protected]
Arna Harðardóttir 858 6505 [email protected]
Þóra Björk Eysteinsdóttir 820 6281 [email protected]
Eða senda tölvupóst á: [email protected]
VIRÐING – VON – LAUSN – LÍFSGÆÐI
Matarfíkn, offita og átröskun eru meðal stærstu heilbrigðisvandamála heims, ekki síst á Norðurlöndunum, og er ástandið einna verst á Íslandi. Rúmlega 60% Íslendinga eru of þungir og um það bil fjórðungur glímir við offitu og þá hefur öryrkjum vegna offitu fjölgað mikið. Hér á landi eru til mismunandi meðferðarúrræði fyrir matarfíkla, offitusjúklinga og þá sem glíma við átröskun. Þar má nefna MFM-miðstöðina, Reykjalund, Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, meðferðarteymi víða í heilbrigðiskerfinu, sálfræðiþjónustu og aðrar stofnanir og einkafyrirtæki sem veita ráðgjöf. Einnig eru starfandi 12 spora samtök þeirra sem eiga við matarvanda að stríða.
Esther Helga Guðmundsdóttir stofnaði MFM-miðstöðina vorið 2006. Hún hefur unnið jöfnum höndum að fræðslu um málefnið fyrir fagaðila og almenning, ásamt því að bjóða upp á einstaklingsmiðaða meðferð við matarfíkn og átröskunum. Hún lauk meistaranámi í stjórnun í heilbrigðisþjónustu frá Háskólanum á Bifröst. Hún hefur starfað með mörgum af fremstu meðferðaraðilum Bandaríkjanna undanfarin misseri. Esther Helga hefur lengi gengið með þá hugmynd að stofna samtök áhugafólks um MATARHEILL sem yrðu nokkurs konar regnhlífarsamtök í anda SÁÁ. Samtökin sameina þá sem vilja vinna að forvörnum, fræðslu og meðferð og einnig fólk sem glímir við matarfíkn, átröskun eða offitu.
Sumarið 2012 kom saman, að frumkvæði Estherar Helgu, áhugahópur um stofnun slíkra samtaka. Á fyrsta undirbúningsfundinum var bókað að samtökin þyrftu fyrst og fremst að beita sér fyrir vitundarvakningu hjá almenningi, fagfólki, stéttarfélögum, stjórnvöldum og matvælaframleiðendum um matarvanda/matarfíkn. Einnig þyrfti að tryggja fjárhagslegan stuðning frá stjórnvöldum við meðferðarúrræði fyrir matarfíkla, efla forvarnir, rannsóknir og fleira og yrði fyrirmynd samtakanna sótt til SÁÁ.
Undirbúningshópurinn hefur unnið markvisst að stofnun MATARHEILLA undanfarna mánuði og haft til ráðgjafar meistaranema í verkefnastjórnun (MPM-námi) í Háskólanum í Reykjavík.
Þeir sem vilja taka þátt í starfi MATARHEILLA eða leggja samtökunum lið með fjárframlögum er bent á að hafa samband við tengiliði samtakanna.