Ert þú áhugasamur/áhugasöm?
– Ljósbrá Mist Bjarnadóttir skrifar
Nú styttist í kosningar hjá okkur í Reykjanesbæ og margir velta því fyrir sér hvað þeir eigi að kjósa. Þannig á það að vera, við eigum að taka okkur tíma í að velta þessu fyrir okkur. Margir kjósa alltaf sama flokkinn ár eftir ár , aðrir skila auðu og enn aðrir mæta ekki á kjörstað. Svo það má segja að við skiptumst í fjóra hópa hvað þetta varðar. Þessir áhugasömu, þessir vanaföstu, þessir hlutlausu og þessir langræknu.
Þessir áhugasömu: Ert þú einn/ein af þeim sem skoðar það sem er í boði, þorir að breyta til og smakka nýja rétti af matseðlinum? Þú skalt labba upp að speglinum og gefa þér fimmu. Húrra fyrir þér, þú ert á réttri braut!
Þessir vanaföstu: Ert þú einn/ein af þeim sem fer alltaf á sama veitingastaðinn og pantar þér sama réttinn? Hvað er spennandi við það? Er ekki kominn tími til þess að stíga út fyrir þægindahringinn og prufa eitthvað nýtt? Vertu nógu hugrakkur/hugrökk til þess að vera ekki sömu skoðunar og þú varst í gær. Það er eðlilegt og bendir til þess að þú sért að þroskast. Ekki vera vaninn einn, vertu áhugasamur/áhugasöm!
Þessir hlutlausu: Ert þú einn/ein af þeim sem veist ekkert hvað þú átt að panta þér að borða og lætur því þjóninn velja fyrir þig? Það getur verið ansi spennandi er það ekki? Öllum þykir okkur gaman að láta koma okkur á óvart. En það þíðir þá ekki að röfla yfir því hvernig smakkaðist. Þú gast ekki tekið afstöðu og þá verður þú að sætta þig við það sem þú færð. Ekki vera hlutlaus, vertu áhugasamur/áhugasöm!
Þessir langræknu: Ert þú einn/ein af þeim sem ferð ekki út að borða því einhverntíma fékkstu svo hrikalega vonda pítsu að þú getur ekki hugsað þér að fara aftur? Það eru til fleiri veitingastaðir og mjög líklegt að þeir bjóði upp á betri mat. Farðu bara þangað, af hverju að borða pítsu þegar maður getur borðað alvöru steik? Ekki vera langrækin/n, vertu áhugasamur/áhugasöm!
Hvað ætlar þú að gera við þitt atkvæði? Ekki vera vaninn einn, hlutlaus eða langrækinn. Vertu áhugasamur/áhugasöm! Ég er áhugasöm og ætla ekki að láta mig vanta á kjörstað þann 31.maí. Ég mun kjósa breytingar og skora á alla kjósendur að gera slíkt hið sama.
Ljósbrá Mist Bjarnadóttir,
nemi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja