Ert þú 60 ára +?
Ert þú 60 ára +? Ef svo er býður Félag eldri borgara á Suðurnesjum þér að koma og taka þátt í okkar fjölbreytta starfi.
Á þessu aldurskeiði er upplagt að íhuga hvernig þú vilt eyða ævikvöldunum. Viltu lifa til fulls og njóta góðs félagsskapar? Þá er Félag eldri borgara á Suðurnesjum kjörinn staður fyrir þig. Félagið býður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir félagsmenn sína. Þó svo að við séum hvert með sínu móti og misjafnt hvað hentar hverjum, allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi sama á hvaða æviskeiði þeir eru. Í félagsstarfi félags eldri borgara á Suðurnesjum kennir margra grasa. Þar er boðið upp á glervinnslu, postulínsmálun og ýmislegt handverk, dans, boccia, gönguhópa, leikfimi, billjard, bridge, félagsvist, leikhúsferðir og dagsrútuferðir um landið. Alla föstudaga er boðið upp á ýmis skemmtiatriði, söng og fleira á Nesvöllum klukkan 14.00. Svo höfum við haustfagnað (árshátíð) og Þorrablót ásamt ýmsu öðru til skemmtunar.
Árgjaldið hjá okkur er aðeins 2.500 krónur. Innifalið í því er Aftanskin, upplýsingabæklingur um félagið, afsláttarkort sem gefur afslátt hjá mörgum fyrirtækjum í bænum ásamt ýmsu öðru sem bætir og kætir.
Allir þurfa félagsskap og að umgangast annað fólk sem gerir öllum gott, því viljum við í Félagi eldri borgara á Suðurnesjum sjá þig, kynnast þér og deila lífi okkar með þér. Vonandi léttir samkomubanni fljótlega svo að við getum tekið aftur upp þráðinn og boðið upp á allt það félagsstarf sem hefur áður verið í boði hjá okkur. Því miður hefur starfið hjá okkur verið í lágmarki síðastliðið ár út af Covid-19. Þessi fordæmalausi tími hefur verið mörgum erfiður og lengi að líða og því miður hefur einmanaleikinn sótt á marga en við horfum fram á veginn og bíðum bjartari tíma og vonumst við í stjórn félagsins til að hitta nýja og gamla félagsmenn við fyrsta tækifæri.
Skráning í félagið með upplýsingum um: Nafn kennitölu og heimilisfang má senda á netfang: [email protected] eða í síma: Loftur 860-4407 og Guðrún 899-0533 ef fleiri upplýsinga er þörf.
Facebook síðan okkar er: FEBSfréttir
Með von um að sjá ykkur sem flest fljótlega.
Guðrún Eyjólfsdóttir,
formaður félags eldri borgara á Suðurnesjum.