Erfitt val ... og þó
Svanur G. Þorkelsson, leiðsögumaður, skipar þriðja sæti á lista Pírata í Reykjanesbæ.
Bæjarstjórnarkosningarnar nálgast í Reykjanesbæ sem annars staðar á landinu og þeir sem ekki eru búnir að lofa sínu atkvæði eða ætla að kjósa flokkinn sinn sem þeir hafa kosið síðan þeir fengu kosningarétt, eiga erfitt verk fyrir höndum. Þegar farið er yfir þær stefnuskrár sem birtar hafa verið og málflutningur þeirra sem ekki hafa birt neina stefnuskrá, er athugaður, kemur í ljós að málefnin eru afar áþekk ef ekki eins hjá öllum sem í framboði eru.
Auðvitað er auðvelt að telja þá frá sem fyrirgert hafa sínu tilkalli til að vera í framboði með því einu að kenna sig við ákveðna flokka og fara þar fremstir stjórnarflokkarnir sem eru nýbúnir að ræna þjóðina, og þá einnig íbúa Reykjanesbæjar, miklum fjármunum með því að selja ættmennum sínum eina af bestu mjólkurkú landsmanna.
En þeir sem hvergi komu þar nálægt geta staðið uppréttir og talað keikir um fleiri atvinnutækifæri, betri læknisþjónustu, örlátari framlög til íþrótta og grænt líf, eins og þeir gerðu fyrir fjórum árum, án þess að þurfa skammast sín fyrir það eitt að bjóða fram í nafni stjórnarflokks.
Af þeim hafa Píratar samt nokkra sérstöðu. Þeir eru eina framboðið sem talar fyrir algjöru gagnsæi stjórnsýslunnar og hafa frá upphafi verið fylgjandi rafrænni kosningu íbúa bæjarins um öll stærri mál. Önnur framboð hafa reyndar nú apað íbúakosninguna eftir Pírötum og er það vel, gott er gott, hvaðan sem það kemur.
Þegar að stærsti hluti tíma fólks fer í að hafa í sig á er ekki von að fólk geti sett sig inn í öll mál sem stjórnsýsla bæjarfélagsins verður að eiga við á hverjum tíma. En er ekki betra að hafa í bæjarstjórn einhvern málsvara þess að þau mál sem verulega skipta alla máli, verði borin undir bæjarbúa?
Og er ekki betra að hafa einhvern eða jafnvel einhverja í bæjarstjórn sem telja það óskoraðan rétt allra bæjarbúa að geta fengið að vita hvað er í bígerð og hvað er í raun og veru verið að undirbúa, hvað hlutirnir kosta og hvaðan peningarnir koma, ef og þegar þeir hafa áhuga á að kynna sér málin.
Ef þú ert sammála því, þá skora ég á þig að setja X við P þann 14. maí næstkomandi.