Erfðabreytt rauðblaðabirki

- Aðsend grein frá Konráði Lúðvígssyni

Fátt gleður augað meir á fögrum haustdegi en að ganga um íslenska náttúru og njóta þeirrar litardýrðar sem fyrir augun ber. Hið sólríka sumar 2016 kvaddi okkur landsmenn með löngu hausti og óendanlegum síbreytileika í laufskrúði runna og trjáa. Að ganga um gróðurvaxna náttúru í fjallendi þar sem dillandi lækjarsprænur og skófi þaktir bergstallar magna upp dýrðlegt litarskrúð í lyngi, trjám og runnum er upplifun sem gleður mannshjartað. Menn gera sér sérstakar ferðir á Þingvöll til að bera slíkt sjónarspil auga. Haustlitir planta verða til við það að dregur úr virkni ljóstillífunar í blaðgrænu laufanna er sól tekur að lækka á lofti auk þess sem uppsöfnuð næringarefni í blöðunum flytjast nú niður í rætur plantanna. Erfðaeiginleiki plantanna sjálfra ákveður mismunandi litarafbrigði haustlitanna. Þannig verður litur ilmbjarkarinnar gulur, fjalldrapans rauður og afkvæmi þeirra skógviðabróðirinn með tónum þar á milli. Alþekkt er litskrúð skriðmispilsins með sínum dökkrauðu blöðum þöktum berjaskrúð þar sem hann þekur stokka og steina á yfirferð sinni. Garðunnendur leika sér gjarnan með litardýrð í sumargróðri með fjölbreytileika í plöntuvali og er möguleikinn óendanlegur í þeim efnum líkt og er listamenn tjá sig myndrænt. Íslenska ilmbjörkin (Betula pubescens) hefur verið með þjóðinni allt frá landnámi þegar hún klæddi landið frá fjöru til fjalls og gaf landinu þá áferð sem hugsað er til þá við viljum endurvekja sýn þá er við landnámsmönnum blasti í árdaga. Í tímanna rás þurfti hún að standa af sér ágang manna og kvikfénaðs vegna breyttra búskaparhátta og fór á tímabili halloka í þeirri baráttu. Hún gerðist kræklótt og hrum og ekki beinlínis fagurt garðatré þótt hún fyndist alls staðar þar sem ræktun yfirleitt átti sér stað. Innan um fundust þó einstaklingar sem báru af öðrum, vörpulegir og beinir. Bæjarstaðaskógur í Skaftafelli hefur löngum verið talinn einhver þróttmesti birkiskógur landsins þar sem trén eru beinvaxin og allt að 12 metra há. Þangað hefur gjarnan verið leitað fanga til að framrækta einstaklinga með sömu áferð. Erfðabötun birkis hefur markvisst átt sér stað hérlendis síðan 1987 með því markmiði ná fram fyrrnefndum eiginleikum. Beitt hefur verið vefjaræktun í tilraunaglasi til að skapa einstaklinga af sömu gerð, sem síðar er fjölgað með fræjum. Má þar nefna yrkin Emblu og Kofoed sem hafa einstaka vaxtareiginleika. Lykilmaður í þessu bötunarferli hefur verið Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur sem með víxlfrjóvgunum hefur tekist að ná fram eftirsóknarverðum eiginleikum í formi og þrótti. Nýjasta hugarfóstur hans er að framrækta þróttmikið limfagurt rauðblaða birki eins og til að ögra hinum einslita fagurgræna litaskrúð sem einkennir birkiskóga að sumri. Þorsteinn er Rotary félagi og því höfum við í Rótaryklúbbi Keflavíkur fengið hann á fund hjá okkur í klúbbnum þann 11. maí til að kynna okkur þetta verkefni. Eins og fram kemur í grein forseta okkar í síðasta blaði Víkurfrétta hefur eitt af samfélagsverkefnum klúbbsins verðið ræktun skógarlunds við Rósaselsvötn. Svæðið hefur tekið miklum breytingum síðan það starf hófst 1986 og er notalegt að ganga þar og njóta kyrrðar og fuglasöngs á góðum sumardegi.

Rótaryklúbburinn hefur ákveðið að bjóða öllum þeim sem áhuga hafa að mæta þetta kvöld til okkar og hlýða á erindi Þorsteins sem áreiðanlega mun vekja athygli. Sérstaklega bjóðum við velkomna félaga í Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands og Skógræktarfélags Suðurnesja. Fundarstaður er á Park-Inn Hóteli við Vatnsnesveg og hefst þann 11. maí kl. 19:30.

Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands hefur á undanförnum árum haldið fjölmarga fræðslufundi tengda garðyrkju allt frá ræktun matjurta til manneldis til hleðslu grjótgarða til prýðis. Á döfinni er að beina athyglinni að ungviðinu með aðkomu leikskóla á svæðinu. Sennilega er hvergi betri jarðvegur til að sá góðu fræi en í hjörtu þeirra sem erfa munu landið.

Konráð Lúðvíksson, læknir