Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 19. janúar 2000 kl. 18:48

ER ÞETTA SATT HERRA SÝSLUMAÐUR?

Sæll vertu sýslumaður. Ég var að heyra það hér í bæ að til stæði að hætta að vera með vaktir lögreglu hér í Grindavík. Ég er búinn að hugsa um þetta í nokkra daga og reyndar trúi ég ekki mínum eigin eyrum. Að færa þetta í sama horf og var árið 1966 er alveg ótrúlegt. Af hverju halda menn að lögreglan hafi orðið til hér. Halda menn að það hafi bara verið gert uppá grín. Það er þitt að svara hr. sýslumaður. Ég byrjaði í lögreglunni í Grindavík í byrjun árs 1968. Síðan þá hafa verið reglulegar vaktir í lögreglunni. En viti menn nú þegar bæjarfélagið er ört vaxandi þá er allt í einu ekki lengur þörf á löggæslu. Það er rétt að upplýsa þá sem lesa þessa grein að ég var í lögreglunni í Keflavík í 20 ár og þar af síðustu árin sem varðstjóri. Ef þú hr. sýslumaður ætlar að segja mér að það sé auðvelt að sinna lögreglumálum í Grindavík frá Keflavík þá efast ég um að þínir menn, sem lengi hafa haft áhuga á að sjá þetta gerast , hafi ígrundað þetta vandlega. Reyndir lögreglumenn eru mér sammála. Það eru 24 km frá lögreglustöðinni í Keflavík til Grindavíkur og ætla má að með hröðum akstri við bestu aðstæður sé verið í 12-14 mínútur að aka þessa leið. Þá sjá menn hvernig þetta er ef ef eitthvað er að veðri. Þá eru mestu líkurnar á að eitthvað komi fyrir. Hvað þá? Og hvað ef lögreglumenn í Keflavík eru staddir í útkalli í Sandgerði, Garði eða inná Reykjanesbraut. Hvað þá? Er okkur þá fullgott að bíða sama hvaða ástand er á hlutunum? Þessi ákvörðun gæti hugsanlega haft áhrif á ákvarðanatöku fólks þegar það er að flytja búferlum. Við erum með frábærar aðstæður til iðkunar á íþróttum, einsetningu grunnskólans, bygging nýs leikskóla stendur fyrir dyrum en ekki er fyrir hendi sú löggæsla sem hægt er að krefjast í 2200 manna bæjarfélagi. Þarna skapast ákveðið óöryggi sem áhrif getur haft á ákvarðanatöku viðkomandi aðila hvort sem hann kemur eða ekki. Ég vildi gjarnan fá skýringu á þessum sama vettvangi, á því hvort rétt sé eftir haft og hvernig menn sjái það fyrir sér að sinna löggæslu í Grindavík frá Keflavík. Ég get ekki séð það en ég hef nú bara 20 ára reynslu í þessu starfi. Ég mun vinna að því fullum fetum að fá menn til að halda borgarafund um þessi mál þar sem ég ætlast til að þess sé krafist að lögregluyfirvöld í Keflavík rökstyðji þá ákvörðun sína að færa lögregluna og um leið að sannfæra okkur um að öryggi okkar sé betur komið með því að aðsetur lögreglunnar sé í Keflavík. Ekki er fráleitt að ætlast til þess að þingmenn kjördæmisins komi á þann fund og tjái sig svo við vitum hug þeirra, a.m.k. tveir þeirra hafa reynslu úr lögreglunni svo þeir vita um hvað málið snýst. Gunnar Vilbergsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024