Er þetta grín eða hvað?
Það er öllum löngu ljóst að vaxtaokrið og verðtryggingin er að ganga af almenningi og fyrirtækjum í landinu dauðum og fyrir löngu síðan tímabært að lækka vexti verulega og það hratt. Verðtrygginguna þarf að fella niður strax og væri það sú aðgerð sem kæmi almenningi og fyrirtækjum einna best en einhverra hluta vegna virðast stjórnmálamenn ekki hafa dug né þor til þess að stíga skref í þessa átt.
Ekki vantaði gífuryrði þeirra stjórnmálamanna sem komust til valda við stjórnarskiptin, nú yrði tekið til hendinni og málin færð til betri vegar með hagsmuni fólksins að leiðarljósi. Ekki hef ég orðið var við annað en að stjórnarskiptin hafi orðið til þess að vandanum var frestað og engar óþægilegar ákvarðanir verði teknar fyrir kosningar. Fyrir það blæðir almenningi og fyrirtækum til ólífis.
Í gærmorgun var tilkynnt um lækkun Seðlabankans á stýrivöxtum og bjuggust flestir við að við ákvörðunina væri horft til bágrar stöðu almennings og fyrirtækja vegna þess vaxtaokurs sem hefur viðgengist og að lækkunarferlið væri að komast á skrið þannig að það myndi muna um lækkunina, en hvað gerist? Ákveðið var að lækka vexti um 1%. ER ÞETTA GRÍN EÐA HVAÐ, eru þessir menn veruleikafyrrtir?
Þessi ákvörðun mun leiða til enn meiri samdráttar með auknum kostnaði fyrir ríkissjóð, atvinnuleysi og hörmungum sem það hefur í för með sér fyrir þá sem vinnuna missa. Það lítur út fyrir að þeir sem með valdið fara geri sér enga grein fyrir því sem á þjóðinni brennur heitast.
Jón Guðlaugsson
Steinási 20
260 Reykjanesbæ