Er þetta boðlegt?
Í síðustu viku þurfti ég að heimsækja Heilbrigðisstofnun Suðurnesja vegna graftarkýlis sem ég var með á rasskinn. Læknirinn lét mig leggjast á bekk og skoðaði. Sagði mér að bíða aðeins og kallaði á annan lækni sem kom von bráðar og leit á kýlið og sagði: „Við getum ekki gert neitt hérna. Þú verður að fara á bráðavakt Landspítalans.“
Ég fór að hugsa, ég get ekki verið að fara í vitlausu veðri á bráðavaktina fyrir svona. Bráðavaktin tekur á móti slösuðu og veiku fólki. Þar er yfirfullt að gera alla daga. Beið því til næsta dags.
Fór á Læknavaktina á Háaleitisbrautinni. Þar tók læknir á móti mér. Sagði mér að leggjast á sams konar bekk og á læknastofu HSS. Setti á sig hanska og kreisti út gröftinn og skaffaði mér sýklalyf. Þetta tók innan við tíu mínútur.
Staða Heilbrigðisstofnunar hefur verið til umræðu. Ég segi því þessa sögu. Er það boðlegt að senda fólk til Reykjavíkur fyrir ekki stærra verk?
Suðurnesjafólk á skilið að hafa betri þjónustu en þetta.
Sigurður Jónsson.