Er það ekkert mál að verða heimsmeistari?
Á undanförnum vikum höfum við getað fylgst með keppendum á Ólympíuleikunum í París frá morgni til kvölds í flestum fjölmiðlum. Frá undirbúningi þeirra fram á keppnisdaga, frá keppninni sjálfri og enn berast fréttir af þeim hvað sé framundan hjá íþróttafólkinu. Ég ber lof á þessa fréttamennsku, því aldrei er of mikið sagt frá íþróttum og gildum þeirra fyrir börn og unglinga sem hrífast með og eignast sínar stjörnur.
Þrátt fyrir að ég hafi að þessu sinni horft og fylgst minna með en oft áður, naut ég þess engu að síður að fylgjast með úr hæfilegri fjarlægð og upplifði góða frammistöðu keppenda og starfsmanna Ríkisútvarpsins, þegar ég opnaði sjónvarpið. Þar skemmdi ekki fyrir að gamalt Eyjahjarta tekur alltaf kipp þegar fólk úr okkar ranni stendur sig vel. Aðrir fjölmiðlar voru líka með áberandi fréttaflutning frá leikunum og er það vel.
Örkumlast árið 2020
Þrátt fyrir þunnskipað keppnislið okkar fannst mér árangurinn góður. Það er frábært að eiga fólk sem er um og undir tuttugasta sæti á slíkri íþróttamessu sem Ólympíuleikarnir erum. Við erum smáþjóð að etja kappi við keppendur frá hátt í 200 þjóðríkjum og þá er frábær árangur að komast í undanúrslit, hvað þá lengra.
Þegar keppni á Ólympíuleikunum var í hámarki um verslunarmannahelgina var haldið heimsmeistaramót fatlaðra í pílukasti í Skotlandi. Þangað fór keppandi frá Íslandi, Elínborg Björnsdóttir sem hafði verið afreksíþróttamaður í sundi og landsliðskona í pílukasti áður en hún slasaðist alvarlega í bílslysi og örkumlast árið 2020.
Af miklum dugnaði og elju hefur Elínborg, sem nú er bundin hjólastól og nýtur aðstoðar allan sólahringinn, komist til keppni að nýju. Hún var í öðru sæti í sínum flokki, fatlaðar konur í hjólastól á Evrópumeistaramóti í pílukasti fyrir ári síðan og vann sér rétt á heimsmeistaramótið í Edinborg á Skotlandi nú í ágúst. Elínborg gerði sér lítið fyrir og vann mótið og varð heimsmeistari í flokki fatlaðra kvenna í hjólastól.
Er það ekkert mál ...
Það kemur mér á óvart hvað þessum árangri hefur lítill gaumur verið gefin af fjölmiðlum, íþróttaforystunni og ráðamönnum. Og það þrátt fyrir ábendingar. Það er kannski ekkert mál að verða heimsmeistari fatlaðra í pílukasti, vegna þess að afreksstefnan nær ekki til þeirra. Það hefur allavega verið þrautarganga að fjármagna keppnisferðir Elínborgar, og henni jafnvel sýndur lítill skilningur. En vonir hennar stóðu til að heimsmeistaratitill og jákvæð umfjöllun um þann árangur, hjálpaði henni að fjármagna frekari keppnisferðir í framtíðinni. En kannski er heimsmeistaratitill í pílukasti fatlaðra ekkert mál fyrir þá sem hafa ekki séð tærnar á sér í mörg ár. Þeirra glaumur og gleðiskál hljómar alla vega ekki í eyrum heimsmeistarans í pílukasti fatlaðra kvenna í hjólastól, sem spyr sig.
Er það ekkert mál fyrir litla þjóð að eignast heimsmeistara?
Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.