Er Reykjanesbær skuldugasta sveitarfélag landsins?
Mikil umræða hefur verið um fjárhag Reykjanesbæjar undanfarnar vikur. Meirihluti Sjálfstæðisflokksins hér í bæ reynir að sverja af sér allar sakir og reynir að gera málflutning þeirra sem gagnrýna tortryggilegan. Í síðustu viku birti ég á vef Víkurfrétta yfirlit yfir skuldbindingar nokkra sveitarfélaga í svokölluðum rekstrarleigusamningum.
Nú birti ég svipaða töflu en er búinn að bæta við skuldum þessara sveitarfélaga á hvern íbúa. Ef við leggjum síðan þessar tvær tölur saman kemur í ljós að Reykjanesbær skuldar mest þessara sveitarfélaga á hvern íbúa. Nú hef ég ekki haft tækifæri til að skoða öll sveitarfélög á landinu, en sem íbúi í Reykjanesbæ hlýt ég að spyrja hvort það sé rétt að við skuldum mest pr. íbúa á landinu eins og meðfylgjandi tafla sýnir ?
Það skal tekið fram hér að skuldbinding sveitarfélags á hvern íbúa vegna rekstrarleigusamninga er skv. ársreikningum 2003 á verðlagi marsmánaðar 2005. Skuld pr. íbúa er reiknuð út fyrir hvert sveitarfélag eins og það kom fram í ársreikning þeirra fyrir árið 2004 miðað við heildarskuldir bæjarsjóðs og íbúafjölda um áramót hjá þeim sveitarfélögum sem ég gat fengið ársreikning hjá.
Eru skuldirnar jafnvel enn hærri?Ég vil leggja áherslu á og gagnrýni meirihluta sjálfstæðismanna fyrir að reyna að hylja þá staðreynd að við skulduðum 4,2 milljarða miðað við leigusamninga sem búið var að gera í lok árs 2003. Því miður hef ég ekki núvirtar skuldbindingar á samningum sem gerðir hafa verið á árinu 2004 og það sem af er ári 2005. Gróft reiknað sýnist mér það vera vel á 2. milljarð króna sem vantar uppá frá lok árs 2003 eða á vel 2. hundrað þúsund króna pr. íbúa. Spurningin er því eru skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins komnar yfir eina milljón króna pr. íbúa ? Ég skora á bæjaryfirvöld að birta þessar tölur og hætta þessum feluleik og viðurkenna að undir stjórn Sjálfstæðismanna hefur Reykjanesbær aukið við sig skuldum sem aldrei fyrr.
Eysteinn Jónsson Formaður Fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ