Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Er öskubuska sofandi í rúminu þínu?
Laugardagur 28. janúar 2012 kl. 14:47

Er öskubuska sofandi í rúminu þínu?

Hún stóð bein í baki, virtist örugg með sig og talaði til kvennahópsins sem hlustaði af athygli. Hún var forstöðumaður í mikilsvirtu fjármálafyrirtæki og málefnið var fjölskyldan og framinn. Hún sagði að það hefði aldrei staðið henni fyrir þrifum að vera kvenmaður – hún hafi alla tíð vitað nákvæmlega hvað hún vildi og væri komin mjög nálægt því takmarki sem hún hafði stefnt að. Ég dáðist að henni en fann jafnframt fyrir einkennilegri tilfinningu innanbrjósts. Ég átti erfitt með að samsama mig þessari konu og stóð sjálfa mig að því að fara í gegnum það í huganum hversu oft ég hafði efast um að ég væri á réttri braut. Það hefur ekki staðið mér fyrir þrifum að vera kona nema ef vera skyldi þær takmarkanir sem ég hef sett sjálfri mér í gegnum lífið og það hefur gerst oftar en einu sinni að ég hef vanmetið sjálfa mig og óskað þess að ég þyrfti ekki að hafa svona mikið fyrir hlutunum, gæti bara slakað á og einhver annar sæi um mig.

Byrjum á lítilli dæmisögu úr lífi mínu:

Ég keyrði hægt inn götuna – nákvæmlega eins og ég hafði gert svo mörgum sinnum áður. Húsin voru auðvitað nákvæmlega eins og þegar ég keyrði hér síðast, á einni hæð, með fallegum frönskum gluggum og vel snyrtum görðum í réttri stærð. Einn daginn ætla ég mér að eignast eitt af þessum húsum – svo mikið er víst. Hum, kannski gerist það þegar ég eignast mann því þá verða fjárráðin betri og ég get látið fleiri drauma mína rætast og lifað því lífi sem ég á svo skilið eftir að hafa verið svakalega dugleg svona ein í mörg ár...

BONG!!! hvaðan koma svona hugsanir – ég er meðvituð um að velgengni mín í lífinu hefur ekkert að gera með það hvort ég hitti mann eða ekki. Langi mig í svona hús er eins gott að ég skipuleggi hvernig ég ætla að fara að því að eignast það. Ég geri mér líka grein fyrir að það þýðir ekkert að komast hjá þeirri streitu sem fylgir því að takast á við alla þætti lífsins með því að telja sjálfri mér trú um að ákveðna hluti sé ekki hægt að framkvæma nema að ég eignist maka. Ég hef sýnt sjálfri mér að ég get vel tekist á við lífið og tilveruna þegar ég er ein. Þegar ég ÞARF að gera hlutina sjálf og hef engan annan en sjálfa mig til að treysta á kem ég ótrúlegustu hlutum í verk og er ósátt að finna að ég óska þess stundum að einhver bjargi mér frá sjálfri mér. Ég er óhrædd að setja þetta niður á blað og opinbera sjálfa mig á þennan hátt því eftir að hafa kennt sjálfstyrkingu í nokkur ár hef ég komist að því að þetta á svo sannarlega ekki bara við mig.

Colette Dowling setti fram áhugaverða en jafnframt umdeilda kenningu í bók sinni Öskubuskuáráttan. Þar lýsir hún því hvernig líf hennar breyttist þegar hún kynnist manni eftir að hafa verið einstæð móðir í fjögur ár og barist til metorða sem blaðamaður: Þegar við fluttum út í sveit þetta dásamlega haust, fannst mér eins og ég hefði verið náðuð eftir þennan tíma, sem ég hugsaði alltaf um sem „erfiðleikatímabilið“. Ég fann til öryggis í fyrsta sinn í mörg ár, og þá fór ég að skapa hinn rólega heimilisbrag, sem virðir vera helsta minning manns frá barnæskunni. Ég bjó til hreiður og einangraði það með mýksta dúninum og bómullarhnoðrunum sem ég fann. Síðan faldi ég mig í þessu hreiðri. Coletta lýsir því hvernig hún smám saman týndi sjálfri sér, metnaðurinn minnkaði og um leið þægindahringurinn og trú hennar á sjálfa sig. Nýja lífið snerist í kringum „prinsinn“ hennar og fjölskylduna, án þess að nokkur gerði um það kröfu nema hún sjálf.

Margir hafa gagnrýnt þessa kenningu og á við þetta eins og margt annað, einhverjir geta samsamað sig því að gleyma hluta af sjálfum sér þegar farið er í samband, en aðrir alls ekki. Ég trúi því að þetta geti átt við bæði kynin, þ.e. að maður gleymi hluta af sjálfum sér í „samrunanum“.

Að líta á samband kynjanna sem jafningjasamband er í mínum huga heilbrigt og einu samböndin þar sem báðir einstaklingar fá það sem þeir leita eftir – við getum verið frjáls en samt saman. Í ævintýrunum um Öskubusku, Mjallhvíti, Þyrnirós, og Mjaðveigu kóngsdóttur, fá þær allar prinsinn sinn í lokin og lifa hamingjusamar til æviloka, eða hvað? Ég er nokkuð viss um að Öskubusku hefur brugðið við þegar hún var allt einu hætt að sauma, þrífa og þræla og hafði tækifæri til að nota orkuna í eitthvað allt annað. Hennar beið það erfiða verkefni að finna sjálfa sig, fyrir hvað hún stóð, hvaða gildi skiptu hana máli og hverjir voru draumar hennar og þrár. Til að takast á við slíkt verkefni þarf viðkomandi að búa við ákveðið frelsi sem einstaklingur og hvort sú var raunin hjá Öskubusku fylgdi ekki sögunni. En lærdómurinn sem við getum dregið af slíkum ævintýrum er að muna að við berum sjálf ábyrgð á eigin hamingju og því hvernig ævintýrinu okkar lýkur. Köttur úti í mýri, setti upp á sig stýri, úti „bíður“ ævintýri.

Þangað til næst – gangi þér vel

Anna Lóa Ólafsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024