Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Er minnið farið að gefa sig?
Miðvikudagur 18. október 2017 kl. 05:00

Er minnið farið að gefa sig?

-Tölum um heilabilun

Vegna þessa stóra málaflokks sem heilabilun er, þá viljum við minna Suðurnesjamenn á Alzheimersamtökin á Suðurnesjum. Hópurinn samanstendur af hópi kvenna sem hefur á bak við sig bæði fagmenntun og mikla reynslu af heilabilun í fjölskyldu. Unnið hefur verið mikið sjálfboðaliðastarf í þessum málaflokki, með það að markmiði að efla fræðslu og opna umræðu um heilabilun á heimaslóðum.
Undanfarin ár hefur sú stefna verið höfð að hafa þrjá fræðslu/spjallfundi yfir veturinn. Yfirskrift fundanna núna er  „ALZHEIMERKAFFI“  sem er svo auglýst með veggauglýsingum/netpóstum og á Facebook síðu sem heitir Alzheimersamtökin á Suðurnesjum. Hvetjum við sem flesta að líka við síðuna og deila. Kaffiveitingar eru á hverjum fræðslufundi, allir velkomnir og enginn aðgangseyrir.

Við viljum geta þess að allt frá upphafi starfssemi okkar höfum við átt góða að hér á Suðurnesjum og notið styrkja frá ýmsum klúbbum og félagasamtökum bæði í formi beinna og óbeinna fjárstyrkja. Allt það hefur gert okkur kleift að geta boðið upp á fría fræðslu og kaffiveitingar og allir notið. Viljum við því koma þökkum á framfæri til allra þeirra sem stutt hafa við samtökin. Við bjóðum nýtt fólk velkomið í vinnuhópinn okkar og biðjum áhugasama að vera í sambandi með skilaboðum í gegnum Facebook síðuna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við vekjum einnig athygli á að við erum hluti af tenglaneti Alzheimersamtakanna á Íslandi, sem hafa komið upp svipuðu tenglaneti nánast um allt land, öll með sömu meginmarkmið. Við mælum eindregið með að fólk kynni sér þá víðtæku starfssemi sem Alzheimersamtökin á Íslandi standa fyrir, ásamt því að leggja þeim lið. Hjá þeim eru mikið af gagnlegum upplýsingum um heilabilun í heild sinni s.s. persónuleg ráðgjöf, ráðgjafasími og hvers kyns úrræði.

Við vekjum athygli á að vetrastarfið er hafið og fyrsta Alzheimerkaffinu er lokið þar sem Sr.Jóna Hrönn Bolladóttir var með erindið ,,Gleymum ekki þeim gleymnu“. Næsta Alzheimerkaffi er áætlað miðvikudaginn 8. nóvember n.k., kl. 16.30 (í beinu frh. af spilavist á Nesvöllum) og verður nánar auglýst, á Facebook síðu okkar. Gestur nóvemberfundar verður Sirrý Sif Sigurlaugardóttir, fræðslu- og verkefnastjóri Alzheimersamtakanna á Íslandi, sem verður með athyglisverðar og nytsamlegar upplýsingar um hið víðtæka starf sem samtökin standa fyrir.

Við vonumst eftir áframhaldandi góðri mætingu í  Alzheimerkaffi á Suðurnesjum og styðja þannig við fræðslu á heimaslóðum.
          
F.h. Alzheimersamtaka á Suðurnesjum
Aðalheiður Valgeirsdóttir
Hjúkrunarfræðingur