Er í lagi með hjólbarðana?
Nú er að renna upp það tímabil ársins þar sem búast má við töluverðum umskiptum í veðri með tilheyrandi áhrifum á færð, akstursaðstæður og veggrip.
Hjólbarðarnir eru eina snerting ökutækisins við veginn og því vill Umferðarstofa brýna það fyrir ökumönnum að þeir velji rétta hjólbarða miðað við aðstæður og hugi vel að ástandi þeirra.
Gæta þarf þess að mynstur hjólbarðanna sé vel greinilegt og jafnt. Slitnir hjólbarðar missa grip og hemlunareiginleika. Ef vegurinn er blautur getur ökumaður misst stjórn á bílnum þar sem hann bókstaflega flýtur ef ekið er of hratt á lélegum dekkjum.
Ef slit dekkjanna er ekki jafnt þá getur það verið ábending um bilun í stýris- eða hjólabúnaði eða rangan loftþrýsting en slíku ástandi getur fylgt mikil slysahætta. Misslitnir hjólbarðar eru misþungir og það getur haft áhrif á stýrið. Það getur farið að titra eða högg heyrast á vissum hraða í akstri.
Loftþrýstingur þarf að vera réttur. Þrýstingurinn hefur áhrif á aksturseiginleika, þægindi, eldsneytiseyðslu, slit og öryggi og finna má ráðlagðan loftþrýsting á miða sem yfirleitt er inni í hurð bílsins eða í handbók.
Þess skal jafnframt gætt að allir hjólbarðar undir bílnum séu af sömu gerð.
Hjólbarðar eru einn mikilvægasti hluti bílsins og því borgar sig að koma við á næsta hjólbarðaverkstæði og láta meta ástand þeirra.