Er heilbrigðisþjónusta þjónusta í raun?
Ég hef ekki lagt það í vana minn að skrifa greinar í blöð þó mér blöskri eitthvað, en núna gat ég ekki orða bundist. .
þannig er að ég flutti aftur til Reykjanesbæjar síðast liðið vor eftir að hafa verið í burtu í námi. Með mér fluttist maðurinn minn og dóttir okkar. Við höfðum ákveðið að gott væri að ala lítið barn upp í Reykjanesbæ og ég vissi að hér væri gott að búa.
Rétt eftir að við flytjum fáum við bréf frá Árna Sigfússyni bæjarstjóra þar sem hann er að bjóða okkur velkomin í bæinn. Í bréfi sínu lætur Árni okkur vita hversu gott er að búa hér og segir meðal annars að “samfélagið hér sé greinilega orðið nógu stórt til að veita alla helstu þjónustu sem við sækjumst eftir”.
Já flott bréf og ég þakka fyrir það. þó stendur eitt eftir sem ég áttaði mig ekki á. Að heilbrigðisþjónusta teldist ekki til helstu þjónustu sem veitt er í bæjarfélaginu. Eða er ég að misskilja eitthvað??
Þannig er að litla stelpan okkar varð mjög lasin eina nótt og fannst okkur hjónunum þörf á að hún kæmist undir læknis hendur. Klukkan átta morguninn eftir sem er þriðjudagur hringi ég í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að panta tíma hjá lækni. Það var ekki hægt að fá tíma fyrr en í næstu viku, það var sem sagt viku bið á að barnið kæmist til læknis. En hún er veik núna sagði ég við konuna sem svaraði. En því miður þá var þetta svona og okkur var bent á að mæta klukkan 16 á læknavaktina.
Við mættum þangað klukkan 15. 30 og voru þá fjórir á undan okkur. Klukkan 16 var biðstofan orðin full og voru það börn og eldri borgarar sem sátu í öllum sætum og sumir þurftu að standa. Sennilega engin sem hefði getað beðið í viku eftir að komast til læknis.
Það er annað dæmi sem tengist okkur. Þar var ekki hægt að fá tíma fyrr en eftir rúma viku, viðkomandi brá á það ráð að fara með barnið sitt til læknis í Borgarnesi þar sem tími fékkst samdægurs. Barnið var með mikla eyrnabólgu í báðum eyrum og fékk pensilinn kúr, sem það kláraði daginn áður en læknatími hefði fengist hér í Reykjanesbæ.
Þessi dæmi hér að ofan eru eftirvill lítil og sem betur fer ekki alvarleg, en alveg nóg til þess að ég gat ekki orða bundist og spyr er þetta þjónusta sem íbúar á Suðurnesjum sætta sig við? Kannski að fólk ætti að eiga tíma í hverri viku hjá lækni til öryggis ef það skyldi veikjast.
Ég vill taka það fram að þetta er ekki gagnrýni á starfsfólkið hjá Heilbrigðisstofnuninni það er mjög kurteist og er að vinna sína vinnu vel. Ég trúi því að það hljóti að vera fleiri svona dæmi og fólk lætur örugglega í sér heyra hversu slæm þjónustan og það bitnar aðeins á því fína starfsfólki sem fyrir er.
Jenný Þórkatla Magnúsdóttir