Er hægt að segja bless við stress?
Ég hef starfað við það að hjálpa fólki að öðlast betri andlega og líkamlega heilsu í tæp tíu ár núna. Ég get með fullri vissu sagt að rúmlega 90% þeirra sem hafa leitað til mín hafa gert það vegna streitu. Fólk hefur ýmist viljað draga úr streitu eða læra að eiga við hana. Sumir hafa jafnvel viljað öðlast streitulaust líf. Þrátt fyrir þetta kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að komast að því að flest fólk veit ekki hvað streita er. Allir þekkja afleiðingar á borð við svefntruflnanir, höfuðverki, vöðvabólgu, síþreytu, kvíða, spennu, einbeitingarskort og svo mætti lengi telja, en orsakirnar eru fólki oft hulin ráðgáta. Helstu sérfræðingar á þessu sviði eru sammála um að streita eigi sér jafnt líffræðilegar og hugarfarslegar orsakir. Hlutfallslega spilar hugurinn þó stærra hlutverk. Á námskeiðum mínum nota ég tvær skilgreiningar sem hafa hjálpað fólki gífurlega að ná tökum á streitunni.
Streitulaust líf er ekki til
Til að byrja með verður fólk að skilja að streitulaust líf er ekki til. Streita er oft af hinu góða. Hún heldur fólki vakandi, einbeittu og orkumiklu. Hins vegar eru áhrif uppsafnaðrar streitu yfirleitt slæm og leiða af sér þær afleiðingar sem nefndar eru hér að ofan og fleiri til. Ef fólk veit að hugurinn spilar stórt hlutverk í því að orsaka streitu og veit að það er mikilvægt að draga úr neikvæðum áhrifum hennar, liggur ljósar fyrir hvað það þarf að gera. Lausnin felst í því að fólk þarf að ná betri stjórn á hugsunum sínum og læra markvissar aðferðir til að slaka á.
Þú ert það sem þú hugsar
Hugsunin er til alls fyrst. Hvort sem þú leitar í jógafræði, heimspeki, sálfræði eða aðrar tegundir sjálfsstyrkingar koma þessi sannindi í ljós. Hugurinn litar allt okkar líf. Með það í huga hef ég gert töluverðar breytingar á kennslu minni á síðustu mánuðum. Jafnvel þótt líkamsæfingarnar sem ég var að kenna í jógastöð minni hafi skilað miklum andlegum og líkamlegum árangri hef ég nú ákveðið að einbeita mér að því að kenna fólki þær huglægu aðferðir sem skila mestum árangri í baráttu við streituna. Þetta hef ég ákveðið að gera í gegnum fyrirlestra, námskeið og bókaútgáfu. Öll sú reynsla sem ég hef viðað að mér í gegnum árin mun nú vonandi koma fleira fólki að góðum notum, ekki aðeins þeim sem hafa áhuga á jógaiðkun. Stjórn hugans er vandasamt verkefni en ég er fullviss um að allir geti bætt sig töluvert í þeirri iðkun ef þær læra áhrifaríkar aðferðir og umfram allt noti þær reglulega.
Fyrirlestur í Reykjanesbæ
Þann 12.september næstkomandi mun ég halda fyrirlestur um þetta málefni í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ. Þar mun ég ræða nánar um streitu, skammtíma- og langtímaáhrif hennar og leiðir til að draga úr neikvæðum afleiðingum á borð við þær sem ég nefndi í fyrsta hluta greinarinnar. Í framhaldi mun ég bjóða upp á námskeiðið Jóga gegn streitu í samstarfi við Íþróttaakademíuna (sjá nánar www.akademian.is).
Guðjón Bergmann,
rithöfundur og jógakennari
www.gbergmann.is