Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Er fuglaskítur einhvers virði?
Fimmtudagur 29. júní 2023 kl. 06:03

Er fuglaskítur einhvers virði?

Málefni hælisleitenda og flóttafólks hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni að undanförnu. Fólk skiptist á skoðunum þar sem sumir virðast vilja opin landamæri og að öllum verði hjálpað. Aðrir vilja að málin séu tekin ákveðnari tökum og telja að stjórnleysi ríki um málefnið. Í umræðunni hafa ásakanir gengið á víxl og orð eins og útlendingaandúð, mannvonska, rasismi og fleiri hafa verið áberandi.

Í grein sem ég fékk birta í Morgunblaðinu fyrir tæplega einu ári (5.7.2022), ræði ég meðal annars um fólksfjölgunina hér á landi og fleira sem ég tel að tengist málinu [greinina má sjá í rafrænni útgáfu Víkurfrétta].

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Já, margt er ritað og rætt en nýlega vöktu athygli mína skrif sem sett voru fram vegna umræðu um útlendingamálin. Það var ljóst af þessum skrifum að viðkomandi taldi greinilegt að umræðan væri á villigötum. Það var tvennt í þessum skrifum sem ég hnaut um, annars vegar einhvers konar dásemdarupplifun í útlendingaskóla í Svíþjóð og hins vegar skoðun viðkomandi á því að vera íslenskur ríkisborgari væri ekki merkilegra en fuglaskítur.

Um dásemdina í Svíþjóð sem einu sinni var talið eitt „besta land í heiminum að búa í“ þarf ekki að fara mörgum orðum. Þar hefur heyrst hjá heimamönnum að ráðamenn fyrri ára gráti sig í svefn á hverju kvöldi vegna mistaka sinna í stjórn innflytjendamála.

Varðandi ríkisborgararéttinn, þá ræddi ég við góðan vin minn sem fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrir nokkrum árum og spurði hann eftirfarandi spurningar: „Ef þú hefðir mátt velja á milli þess að fá íslenskan ríkisborgararétt eða fuglaskít, hvort hefðir þú valið?“ Vinur minn horfði á mig undrandi og sagði: „Ertu orðinn eitthvað bilaður Nonni minn, eða ertu bara að gera grín að mér?“

Ég verð að segja að ég átta mig ekki alveg á því, af hverju einhver vill vanvirða og þannig gera lítið úr því verðmæti sem ríkisborgararéttur hlýtur að vera hverjum manni, ekki síst þeim sem búa við það mikla óöryggi að vera ríkisfangslausir flóttamenn.

Í besta falli finnst mér svona skrif geta verið til þess fallin að reyna að afvegaleiða umræðu um þann vanda sem Kjartan Már bæjarstjóri lýsti svo ágætlega í Kastljósinu. Við eigum ekki að ræða málefni útlendinga með því að ásaka fólk með ljótum orðum eða af léttúð. Ástandið í heiminum er alvarlegt og við erum þátttakendur þó að geta okkar sé að ýmsu leyti takmörkuð. Ég er almennt á móti öllu sem flokkast undir stjórnleysi og er þeirrar skoðunar að stjórnvöld þurfi að taka málefni hælisleitenda og flóttafólks ákveðnari og skilvirkari tökum með mannúð að leiðarljósi.

Í lokaorðum meðfylgjandi greinar minnar segi ég að friðsæla landið okkar er að breytast, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Stjórnvöld hafa sofið á verðinum og ekki áttað sig á afleiðingum þess að mikil íbúafjölgun í landinu gerir kröfur um að fjármunum sé ráðstafað í takt við auknar þarfir.

Varðandi fuglaskítinn þá vil ég benda á að hænsnaskítur, sem erfitt er að fá um þessar mundir, getur verið verðmætur sem góður áburður þó að ég taki hann ekki fram yfir ríkisborgararéttinn minn.

Bestu sumarkveðjur,
Jón Norðfjörð.