Aðsent

Er ekki rétt að staldra við?
Föstudagur 9. desember 2016 kl. 16:53

Er ekki rétt að staldra við?

Málefni uppbyggingar iðnaðar í Helguvík eru mikilvægt mál sem ber að taka alvarlega. Málið er ekki eins og margir virðast gefa sér; einkamál núverandi eða fyrrverandi

bæjarfulltrúa. Sú uppbygging og framtíðarsýn sem kynnt hefur verið er mál bæjarbúa allra og snýst um framtíðarásýnd og lífsskilyrði bæjarbúa. Nú þegar mannvirkin eru tekin að rísa með tilheyrandi áhrifum og áhyggjum bæjarbúa hlýtur það að vera skylda okkar að fara yfir málið einu sinni enn. Vega og meta gallana og kostina um leið og við áttum okkur á því hvað er okkur og bænum okkar fyrir bestu til framtíðar litið.

Public deli
Public deli

Áhyggjur bæjarbúa snúa að því hvað það er sem koma skal. Verður það allt í lagi fyrir okkur sem íbúa að svo stutt frá bænum muni hugsanlega rísa mengandi iðnaður sem hugsanlegt er að hafi áhrif á heilsufar íbúa? Áhyggjurnar snúa líka að ásýnd mannvirkjanna sjálfra. Er það örugglega það sem við viljum að ímynd bæjarins verði háreistar byggingar og skorsteinar sem burt séð frá öllum hreinsibúnaði munu spúa svo mengandi efnum út í loftið að allar þær stofnanir sem um hafa fjallað telja að vöktun á umhverfisáhrifum sé nauðsyn.

Við verðum að komast upp úr skotgröfum umræðunnar þar sem tekist er á um álit sérfræðinganna eða efnahagsleg áhrif framkvæmdanna. Við verðum að komast á það stig í umræðunni sem í raun hefði átt að vera fyrsta stigið. Er þetta sú framtíðarsýn sem við viljum fyrir bæinn okkar, þar sem mörg okkar hafa alist upp, og margir vildu svo gjarnan ala börnin sín upp? Við verðum að vera sannfærð um hvað það er sem við viljum og sýna samtakamátt til að hafna því sem við viljum ekki. Við skulum sýna okkur sjálfum þá virðingu.

Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson