Er ekki komið nóg?

Ég hef undanfarið verið svolítið hugsi yfir stöðu mála í bæjarfélaginu okkar Reykjanesbæ. Verið ánægður með sumt og óánægður með annað. Sýnist þó í grundvallaratriðum að við séum á réttri leið út úr þeim  gríðarlega fjárhagslega vanda sem bæjarfélagið var komið í og að innan nokkurra ára verði þeim viðmiðum náð er krafist er svo rekstur bæjarins megi verða með eðlilegum hætti.

En eitt veldur mér meiri áhyggjum en fjárhagsstaða bæjarsjóðs, og það er sú stöðuga skerðing á lífsgæðum sem okkur íbúum er boðið upp á af rekstararaðila kísilversins í Helguvík. Undanfarna mánuði eða allt frá opnun þeirrar verksmiðju hefur því verið haldið fram að sú lyktarmengun sem frá kísilverinu stafar í norðanátt séu byrjunarörðugleikar. Verið sé að stilla ofninn. Bæjarbúar velflestir hafa sýnt þeirri skýringu mikla þolimæði, en allt tekur enda. Lyktin er ennþá og engu þægilegri en áður.

Við höfum á undanförnum mánuðum fengið að heyra hinar undarlegustu afsakanir og útskýringar af hálfu rekstaraðilanna. Útskýringar sem gera eiga lítið úr hlutunum og jafnvel fá okkur til að trúa að lykt sú sem þeir útdeili okkur sé í anda rómantískrar stemmningar kaldra vetrarkvölda þar kynnt sé upp í arni og kveikt á kertum. Hvernig þeirra rómantík er háttað veit ég ekki, en veit að sú súra reykjarlykt sem leggst yfir bæinn hvetur mig að minnsta kosti ekki til rómantískra hugsana, þvert á móti. Þegar sú lykt leggst yfir leggst slenið yfir mig og ég verð þyngri til allra verka.

Sumir hafa réttlætt stöðuna og sagt sem svo að það sé þó komið í ljós að mengun sú er leggur frá kísilverinu sé  ekki lífshættuleg. Á meðan það er ekki lífshættulegt er það í lagi! Slíku viðhorfi hljótum við að andmæla. Hvað með þá sem eru viðkvæmir fyrir? Eiga þeir bara að sætta sig óbreytt ástand með öllum þeim óþægindum sem fylgja bara af því að einnhver segir okkur að þetta sé ekki lífshættulegt. Erum við orðin svo djúpt sokkin að þurfa að hlusta á slík aularök sem forsendu fyrir óbreyttu ástandi og skerðingu þeirra lífgæða sem við höfum þó verið svo lánsöm að búa við.

Árið er 2017, þjóðir heims hafa áttað sig á þeim vandamálum er mengun fylgja. Það hafa íbúar í Reykjanesbæ einnig gert, og margir hverjir sagt að nú sé komið nóg. Umhverfisstofnun hefur gefið rekstraraðilum kísilversins langt band í von um úrbætur svo fyrirtækið geti farið eftir þeim starfsleyfisskilyrðum er því voru sett. Í þeim starfsleyfisskilyrðum voru engar heimildir til lyktarmengunar, og talsmenn verkmiðjunnar hafa ekki getað lofað að sú lyktarmengun sem nú er ásamt annarri mengun muni hverfa svo starfsemi þeirra muni ekki hafa áhrif á lífskilyrði bæjarbúa.

Þegar svo er komið að þeir aðilar er reka kísilverið, eða sú eftirlitsstofnun er sett hefur skilyrðin geta ekki tryggt að eftir starfsleyfisskilyrðum sé farið, hlýtur að vera ástæða til að spyrja fulltrúa Umhverfisstofnunar hvort ekki sé komið nóg, eða hvað ætla menn að gera svo íbúar Reykjanesbæjar verði ekki um alla framtíð tilraunadýr lýðheilsutilraunar kísilversins.

Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson
íbúi í norðurhluta Reykjanesbæjar