Er brandarinn ekki búinn?
Sóðalegar auglýsingar á vegum sjónvarpsstöðvarinnar Sirkus þar sem Silvía Nótt auglýsir vefsíðuna sína á www.minnsirkus.is voru ástæða þess að áhyggjufullur lesandi Víkurfrétta hafði samband.
Viðkomandi aðili var þá með unga frænku sína í heimsókn og var kveikt á Sirkus í sjónvarpinu þegar auglýsing þess efnis að Silvía Nótt væri búin að setja inn myndir af Klöru systur sinni í óviðeigandi aðstæðum með Guðmundi frænda þeirra. Fannst viðkomandi þessi auglýsing og hinar sem auglýsa vefsíðu Silvíu á sjónvarpsstöðinni Sirkus vera til háborinnar skammar og stönguðust líkast til á við útvarpslög.
Mest fór þó fyrir brjóstið á lesanda Víkurfrétta að unga frænka hans skyldi hafa tekið upp á því að herma eftir Silvíu Nótt ýmis þau fúkyrði sem Silvía notar í daglegu tali. Þá er ótalið að viðkomandi þurfti að útskýra fyrir frænku sinni að ekki væru myndbönd eða myndir á vefsíðu Silvíu sem sýna þessar athafnir sem um ræðir í auglýsingunum heldur væri verið að auglýsa vefsíðuna sjálfa.
Sá er samband hafði við Víkurfréttir sagði að mikil reiði hefði gripið um sig í fjölskyldu hans sökum þessa máls og spurði:„Er brandarinn ekki búinn?“ Þá eigandi við að nokkuð langt væri síðan Silvía Nótt hefði farið yfir strikið gagnvart aðdáendum sínum enda í meira lagi vinsæl hjá ungu kynslóðinni sem sást glögglega fyrr á þessu ári á öskudeginum. Einnig var viðkomandi þess fullviss að hann og hans fjölskylda væru ekki þau einu sem hefði verið misboðið með þessum auglýsingum á Sirkus sem sýndar eru á besta tíma í sjónvarpinu.