Er „Bítlabærinn“ orðin „Rekstrarleigubærinn“ ?
Við Suðurnesjamenn höfum oft fengið skemmtileg uppnefni og má þar helst minnast nafna eins og “Bítlabærinn” og “Íþróttabærinn” sem eru jákvæð og af skemmtilegu tilefni. Meðal gárunga í fjármálageiranum hefur hins vegar orðið til nýtt nafn á bænum okkar, þ.e. er “Rekstarleigubærinn”.
Tilefnið er að nýlega var birtur opinberlega ársreikningur Reykjanesbæjar sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir utan það að vera einn sá versti í manna minnum. Minnir helst á frægan bæ í Danmörku –Farum kommune. Borgarstjórinn þar seldi allar eigur bæjarins, var duglegur að auglýsa sjálfan sig, framkvæmdi sem óður væri en svo allt í einu dró ský fyrir sólu: Bærinn fór beint á hausinn.
Ársreikningar Reykjanesbæjar
Í skýringum með ársreikningum er liður sem kallast “Rekstrarleigusamningar”. Þar kemur fram að Reykjanesbær skuldar að núvirði u.m.þ.b. 3.100 milljónir króna auk þess sem eftir er að færa inn skuldbindingar að upphæð rúmlega 2.000 milljónir króna. Fyrir skömmu spurði alþingismaðurinn Gunnar I. Birgisson félagsmálaráðherra um skuldbindingar sveitarfélaga vegna rekstrarleigusamninga. Í svari félagsmálaráðherra kemur fram að Reykjanesbær skuldi 4.200 milljónir sem er mest allra sveitarfélaga á landinu. Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu skuldar hver íbúi í Reykjanesbæ rúmlega 383 þús. krónur sem er langmest allra sveitarfélaga í landinu skv. svari félagsmálaráðherra.
Vert er að taka það fram að talsmenn meirihluta Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ tala ekki um þetta sem skuldir þegar talað er um skuldastöðu sveitarfélagsins.
Áherslur Framsóknarflokksins
Framsóknaflokkurinn hefur ekki lagst gegn þeirri hugmyndafræði að sveitarfélög “úthýsi” rekstri fasteigna hjá einkaaðilum. Það sem Framsóknaflokkurinn vill hins vegar leggja áherslu á og gagnrýnir meirihluta sjálfstæðismanna fyrir er að reyna að beita “Barba-brellum” þegar kemur að fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. Við teljum því rétt að skuldbindingar sveitarfélagsins séu allar taldar með í efnahagsreikningi sveitarfélagsins. Það verður að okkar mati að telja þessar skuldbindingar með svo hægt sé að gera sér betur grein fyrir raunverulegri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og greiðslugetu til framtíðar litið. Þá er mjög varhugavert hvernig meirihluti sjálfstæðismanna veður í hvert verkefnið á fætur öðru og skuldbindur sveitarfélagið enn frekar án nánari athugunar né tillits til greiðslugetu sveitarfélagsins.
Án útboðs – ekki leitað ódýrustu leiða
Þá verður einnig að setja stórt spurningamerki við hvernig þessir hlutir eru framkvæmdir. Ekki er leitað tilboða hjá fleiri aðilum heldur ávallt samið við einn og sama aðilann, hvers vegna það er gert er í meira lagi ankannalegt. Það hefur löngum þótt góð regla að láta einkaaðila keppa um verkefnin til að ná fram besta verðinu. Af einhverjum dularfullum ástæðum finnst íhaldinu í meirihluta Reykjanesbæjar ekki ástæða til þess heldur semur alltaf án útboðs við einn aðila.
Eysteinn Jónsson
Formaður Fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ