Er barnið þitt í hættu?
Fíkniefnaneysla er mikið vandamál í okkar bæjarfélagi sem og víðar og er líklega eitt stærsta samfélagsmein þjóðarinnar. Yfir 75% af öllum afbrotum og glæpum tengjast fíkniefnum á einhvern hátt og lögreglan nær ekki utan um þessi mál eins og æskilegt væri enda búið við fjársvelti til margra ára og þar af leiðandi undirmönnun.
Fíkniefnaneyslan snertir fjölskyldu og aðstendendur neytandans þannig að líf þeirra er undirlagt og oft mikið vonleysi ríkjandi og úrræði fá. Unglingur í neyslu sem uppvís er af glæpum því tengdu fær fangelsisdóm og afplánar hann í fangelsi innan um forhertari afbrotamenn og kemur oft út í meiri vanda til baka af afplánun lokinni.
Hvað er til ráða og hvað geta bæjaryfirvöld gert?
Vinna þarf stefnumótun fyrir þennan málaflokk.
Ráða þarf forvarnarfulltrúa í fullt starf sem vinnur náið með lögreglu, skólum, foreldrafélögum og ekki hvað síst með börnunum sjálfum.
Skoða þarf alvarlega að setja á stofn meðferðarheimili í bænum sem kemur í stað fangelsis.
Setja þarf mikla pressu á ríkisstjórnina að veita fjármagni hingað, til jafns við önnur landssvæði, til eflingar löggæslu, forvarna og meðferðarúrræða.
Hvað getur þú gert sem borgari?
Hættum að líta undan, viðurkennum vandann, láttu vita ef þú sérð eitthvað misjafnt en til þess er fíkniefnasími lögreglunnar 800 5005 sem tekur við nafnlausum ábendingum.
Ábending þín gæti verið síðasti hlekkurinn í keðjuna til að upplýsa mál.
Kjóstu Samfylkinguna í komandi kosningum því við ætlum að gera gott samfélag enn betra - Samfélag í sókn.
Valur Ármann Gunnarsson,
leigubifreiðarstjóri og fyrrverandi lögreglumaður, skipar 10. sæti á S-lista Samfylkingar og óháðra.
leigubifreiðarstjóri og fyrrverandi lögreglumaður, skipar 10. sæti á S-lista Samfylkingar og óháðra.