Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Er andleg heilsa jafn mikilvæg og líkamleg heilsa?
Ósk Matthildur.
Föstudagur 24. maí 2019 kl. 06:00

Er andleg heilsa jafn mikilvæg og líkamleg heilsa?

Þegar þú ákveður að taka þig á líkamlega, hugsar þú þá um andlegu heilsuna líka? Margir fara í heilsufarsmælingu á eins til tveggja ára fresti til þess að skoða líkamlegt ásigkomulag, hvað með andlegu hliðina?

Vítahringur og sjálfsásakanir
Reynsla mín og þekking er sú að andleg heilsa skiptir jafn miklu máli og líkamleg heilsa. Andleg heilsa hefur áhrif á líkamlega heilsu. Hún er ekki eins sýnileg og brotið bein, hjartaáfall, sár, marblettir eða önnur líkamleg meiðsl en það sem hún skilur eftir sig má merkja í daglega fari þínu og hugsunarhætti. Algengir andlegir heilsukvillar eins og kvíði og steita getur haft í för með sér líkamleg einkenni eins og höfuðverk, ofþreytu, ofhugsanir, vöðvastífleika, magaverki, brjóstsviða, hjartatruflanir, breytingar á matarlyst (t.d. að svelta, ofát, löngun í sætindi) og/eða svefntruflanir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessir þættir eiga sinn sess bæði í andlegri og líkamlegri heilsu en þegar boðflennan á öxlinni með hornin og stafinn nær tökum á andlegu heilsunni er oft að finna fyrir þessum einkennum og því fylgja oft neikvæðar hugsanir og sjálfsniðurrif. Við ásökum okkur fyrir of litla hreyfingu, blótum okkur fyrir að hafa ekki sjálfsaga í mataræðinu, fyrir að borða ekki nóg, fara ekki nógu snemma að sofa, fyrir að líta svona eða hinsegin út o.s.frv. og í kjölfarið verðum við ennþá þreyttari, fáum meiri höfuðverk og svefntruflanir. Þannig verður þetta að vítahring.

Fyrirbyggjum andlega vanlíðan
Í framhaldi af því reynum við oft að fara á fullt og sprengja okkur í ræktinni eða annarri hreyfingu og/eða mæla hvert einasta gramm af fæðu ofan í okkur til að komast í sátt við okkur sjálf og höldum að það muni koma okkur á lagið með ALLT sem hrjáir okkur. Eins og það að grennast eða fá vöðvatónun losi okkur við þessar hugsanir fyrir fullt og allt. Eru þessar hugsanir ekki svolítið litaðar af þessari boðflennu?

Skoðun mín er sú að um leið og við förum að skoða líkamlegu heilsuna ættum við að skoða andlegu heilsuna í leiðinni.

Líkaminn er ein stór verksmiðja; heila- og taugakerfið, hjarta- og æðakerfið. Við þjálfum hjartavöðvann og aðra vöðva með líkamlegri þjálfun en sjálfshugsanir og hugarfar með andlegri þjálfun. Við getum fyrirbyggt sjúkdóma og aðra líkamlega heilsukvilla með því að skoða mataræði og hreyfingu en það eru líka til jafn skotheldar leiðir til að fyrirbyggja andlega vanlíðan.

Hvað getur þú tileinkað þér til þess að bæta andlega líðan?
Fáðu góðan svefn.
Hreyfðu þig/finndu hreyfingu sem þér finnst skemmtileg.
Veittu tilfinningum þínum athygli; hvernig líður þér núna, afhverju?
Finndu þér áhugamál/hvað finnst þér skemmtilegt að gera?
Hlæðu meira.
Leyfðu þér að líða vel og leyfðu þér að líða illa.
Talaðu fallega til þín daglega.
Eyddu tíma með fjölskyldu og vinum.
Reyndu að gera hluti sem ÞIG langar, ekki aðeins vegna skyldurækni.
Þakkaðu daglega fyrir það sem þú hefur.
Tjáðu tilfinningar þínar, þær skipta máli.
Umvefðu þig jákvæðu fólki.
Fyrirgefðu sjálfri/sjálfum þér þegar þú gerir mistök.
Hlúðu að þér og hugsaðu til þín eins og þú værir “litla/litli þú”.
Eyddu tíma með sjálfri/sjálfum þér.
Þannig kynnist þú þér betur, veist hvað þú þarft, getur hlustað á innsæið og treyst á sjálfa/sjálfan þig.

Ósk Matthildur
einkaþjálfari ÍAK og heilsumarkþjálfi