Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Er aðstaða fyrir fjarnemendur ekki forgangsverkefni?
Fimmtudagur 8. nóvember 2012 kl. 10:12

Er aðstaða fyrir fjarnemendur ekki forgangsverkefni?

Árið 1997 var Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum (MSS) stofnuð. Stofnun miðstöðvarinnar var mikil bylting í menntunarmálum á Suðurnesjum og síðan þá hefur miðstöðin sífellt leitað nýrra leiða til að bregðast við þörfum Suðurnesjanna í sérstökum námskeiðum og auknu framboði í fullorðinsfræðslu. MSS hefur yfir 12 ár séð til þess að aðstaða sé fyrir nemendur sem búa á Suðurnesjum til að sækja sér fjarnám með því að sjá til þess að kennsluaðstaða, heimavinnuaðstaða og próftaka sé til staðar. Þessi aðstaða hefur verið vel nýtt og skila mörgum meiri menntun án þess að flytja úr bæjarfélaginu eða að vera á brautinni daglega.

Allt þar til árið 2010 hefur samband Sveitarfélaga á Suðurnesjum stutt við miðstöðina en þá var framlagið tekið af vegna bágrar stöðu sveitarfélaganna á svæðinu. Nú í haust var farið af stað með fjarnám í hjúkrunarfræði m.a. vegna þrýstings frá sveitarfélögunum en sambandi sveitarfélaga var um leið gert ljóst að ekki væri hægt að halda úti fjarnáminu nema með stuðningi sveitarfélagana og í kjölfarið ítrekaði sambandið mikilvægi Miðstöðvar símenntunar og mikilvægi hennar fyrir svæðið. Enn hefur þó ekkert svar borist frá sambandinu og ekkert loforð um fjárframlög verið gefið.

Nú er í byggingu glæsilegt hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Reykjanesbæ og það hefur verið vilji ráðamanna að halda eins mikilli þjónustu á heilbrigðistofnun Suðurnesja og hægt er. Þessari þjónustu er ekki hægt að halda úti án hjúkrunarfræðinga. Mikill vandi hefur steðjað að þessum tveimur stofnunum undanfarin ár vegna þess að erfitt er að fá sérmenntað fólk til starfa og því er mikilvægt að svæðið geti verið sjálfbært á þessu sviði og snúi vörn í sókn með því að bjóða heimamönnum menntun í heimabyggð.

Ein rök sambands sveitarfélaga fyrir því að ekki þurfi að styðja við fjarnámið er að ríkið eigi að borga það og í miðstöðinni sé til fjármagn sem nýta eigi í fjarnámið. Í viðræðum við ríkið um þennan vanda hefur komið fram að ríkið greiðir fasta upphæð til allra símenntunarmiðstöðvar á landinu sem sinna fjarnámi. Þessi upphæð breytist ekki eftir nemendafjölda enda er það í höndum sveitarstjórna hvort þeir vilji efla slíkt nám í heimabyggð eða hvetja íbúa til að sækja sér háskólamenntun inn á höfuðborgarsvæðið. Nokkur sveitarfélög hafa t.d. boðið íbúum sínum upp á ferðastyrk til að sækja háskólanám. Þessi upphæð ásamt aðstöðugjöldum nemenda dugar ekki til að halda úti aðstöðu fyrir fjarnámsnemendur og því þarf að koma meira fjármagn til. Afkoma Miðstöðvar símenntunar var góð árið 2010 vegna mikilla verkefna í framhaldsfræðslunni en á síðasta ári var hallarekstur og stefnir að svo verðir einnig árið 2012.

Það er afar brýnt að sveitarfélögin styðji betur við þessa þjónustu Miðstöðvar símenntunar en gert hefur verið undanfarin ár. Kannanir hafa sýnt að almenningur á Suðurnesjum er mjög ánægður með starfsemi Miðstöðvarinnar og ánægðir með þessa þjónustu. Í ljósi umfangsmikillar könnunar á stöðu Suðurnesjanna kemur fram að  menntunarstig íbúa verið almennt lægra en í öðrum landshlutum. Hlutfall íbúa með háskólamenntun er 17,7% en landsmeðaltal er 33%. Í ljósi þessara aðstæðna eru það kaldar kveðjur frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum ef enn eitt árið á að hafna miðstöðinni um framlag frá sveitarfélögunum til að sinna aðstöðu fyrir fjarnámsnemendur. Því skora ég á stjórnarmenn að íhuga vandlega málið og horfa til  þess fjölda sem hefur útskrifast með háskólagráðu og þeirrar staðreyndar að 87% þeirra búa enn á svæðinu og því er ljóst að menntun þeirra skilar meiri mannauði og auknum tekjum fyrir sveitarfélögin í formi útsvars. Einnig að brýn þörf er á að hækka menntunarstig og ekki síst þeirrar brýnu þarfar sem hér er fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Það  verður að hafa í huga þegar sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum forgangsraða fjármagni til ársins 2013.

Inga Sigrún Atladóttir
Stjórnarformaður MSS

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024