Enn og aftur um Garðvang
Vegna skrifa á Facebook vil ég árétta það að í grein minni í VF talaði ég um íbúa Garðs, alls ekki að allir vistmenn og starfsfólk væru óánægt, sem við vitum öll að eru frá flestum bæjarfélögunum á Suðurnesjum.
Staðreyndirnar eru auðvitað þær að flestir vistmenn og starfsfólk eru mjög ánægð með að fara í miklu betri aðstæður og ég samgleðst þeim innilega og auðvitað eru Reyknesbæingar ánægðir með að flytja heim aftur. Það skilja Garðbúar mjög vel sem vilja sjálfir geta eytt efri árum í heimabyggð enda höfum við allan tímann talað um að aðeins hluti hjúkrunarrýmanna eða 15 af 38 verði skilin eftir á Garðvangi og Reyknesbæingar og þá Vogamenn flutt heim.
Það sem er óeðlilegt við þetta er að Garðvangi skildi haldið í gíslingu varðandi endurbætur síðastliðinn 10 ár af stjórn DS sem leiðir til þessa mikla mismunar nú. Sveitarstjórnarmenn hér í Garði trúðu og treystu á að staðið yrði við samninginn frá 2004 þar sem segir að farið verði í endurbætur á Garðvangi um leið og Nesvellir verði tilbúnir, en sem allir sjá núna að var gert í allt of miklu andvaraleysi og trausti á að staðið yrði við samninga.
Stjórn DS hefur enn stöðu til að skilja eftir 15 rými á Garðvangi og þó ekki væri nema 11 sem er hlutfallsleg eign Sandgerðis og Garðs í hjúkrunarrýmafjölda Garðvangs eins og tillagan var um sem fulltrúi Garðs í stjórn lagði fram á síðasta stjórnarfundi DS. Staða á hjúkrunarrýmum hjá DS og Nesvöllum er nú 96 hjúkrunarrými samkvæmt skýrslu Haraldar Líndal og 60 þeirra verða nýtt á Nesvöllum og 30 á Hlévangi þannig að 6 hjúkrunarrými eru eftir og ætti því ekki að vera stórt mál fyrir stjórn DS að bæta við 5-9 hjúkrunarrýmum fyrir Garðvang til að verða við óskum okkar Garðmanna þó það kalli á breytingar á samningi við Hrafnistu.
Vonandi snýst þeim hugur til þess og sættir verði í þessu mjög svo erfiða máli.
Brynja Kristjánsdóttir
bæjarfulltrúi í Garði