Enn eitt hrunið
Ekki get ég sagt að fjárhagsstaða Reykjanesbæjar hafi komið á óvart, og þó. Hún er verri. Það lá við að maður fengi áfall á kynningarfundinum í Stapa, á miðvikudaginn var. Spilin voru lögð á borðið. Staðan er miklu verri en ég hafði getað ímyndað mér. Spurningin er því þessi: Hvers vegna hafði eftirlitsnefnd með málefnum sveitarfélaga og innanríkisráðuneytið ekki gripið í taumana, tekið yfir reksturinn, tekið hann úr höndum bæjarstjórnar, eins og ber að gera lögum samkvæmt? Það mál verður að skýra.
Fyrir liggur taprekstur á bæjarsjóði öll ár frá 2002 til 2013 nema einu. Hallinn var litlar 25 þúsund milljónir króna. Taprekstrinum var mætt með sölu eigna bæjarins og nýjum lánum. Bærinn er flakandi skuldasár uppá 43 milljarða. Upp í skuldahítina þarf að ná í 900 milljónir á ári fyrir bæjarsjóð næsta áratuginn. Áætlun nýrrar bæjarstjórnar, Sóknin, kveður á um að skerða þjónustu um 500 milljónir á ári og auka tekjur um 400 milljónir. Ekki kom fram á Stapafundinum hvernig það verður gert. Skýrist í desember? Kannski.
Vera má að skýringin á öllu tapinu sé öðru að kenna en okkur. Atvinnuleysi eftir herinn, fjármálahruni frjálshyggjunnar, falli Sparisjóðsins. Bærinn hafi orðið að bregðast við nýjum aðstæðum í anda þess að ef illa aflast verði að sækja lengra á miðin, hvernig sem viðrar. Það er gott að eiga draum og hafa framtíðarsýn, en það er afleitt að flytja inn í drauminn. Við erum að súpa seiðið af því núna. Það hefur orðið enn eitt hrunið. Heimalagað hjá okkur.
Fjárfestingin (sem tekin var að láni) í götum og lóðum í Helguvík, Njarðvík og víðar liggur í dvala og mun liggja þar áfram og safna mosa um ókomin ár. Auðvitað er þessi fjarfesting ekki farin, hún er þarna, en hún er bara engum til gagns. Ekki ennþá. Allt var þetta í plati. Hún er nú blýþungur skuldabaggi á herðum okkar íbúanna. Þá byrði verðum við að bera saman.
Kannski er best að vera ekki með neitt neikvæðniraus. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir, eins og mér heyrðist nýi bæjarstjórinn ýja að í Stapa. Mikið rétt. Við Suðurnesjamenn erum vanir að lenda í ýmsu. Köllum ekki allt ömmu okkar, og fast þeir sóttu sjóinn og allt það. Nei, kæru vinir, brettum upp ermar, öxlum ábyrgð á gjörðum okkar (þ.e. síðustu bæjarstjórnar) og borgum brúsann með bros á vör.
Hér eru tækifæri. Ekki skal gert lítið úr því. Ég tek undir það. Gott landsvæði, framtíð í ferðaþjónustu og orku, ekki bara í jarðhita, heldur eru líklega hvergi betri skilyrði fyrir vindorkuver í Evrópu en einmitt hér á Suðurnesjum, vindorkuver sem gætu framleitt meiri orku en bæði Reykjanesvirkjun og Svartsengi framleiða saman í dag.
Álver og annar orkufrekur iðnaður er vissulega enn tækifæri. Fleira mætti nefna. En að nýjum atvinnutækifærum þarf að vinna af skynsemi og nú þarf að breyta um stíl. Sleppa loftköstulunum og ráðast fyrst í framkvæmdir þegar þeirra er raunaverulega þörf og samningar liggja fyrir um tækifærin. Þá mun okkur farnast vel. En það kostar fórnir að snúa vörn í sókn.
Það verður að greiða reikninginn fyrir þá loftkastala sem fyrri bæjarstjórn byggði og enginn flutti inn í nema hún sjálf í draumi sínum. Það þarf að snúa niður óráðsíuna. Reikningurinn hljóðar upp á 900 milljónir á ári, næsta áratuginn. Það samsvarar 700 þúsund kr. skuld hvers einasta íbúa, að meðtöldum kornabörnum og gamlingjum. Skuldina verður að borga á næstu 10 árum, með verri þjónustu og hærri sköttum. En hvernig? Því mun núverandi bæjarstjórn svara þegar Sóknin hefst og/eða eftirlitsnefndin með fjármálum sveitarfélaga.
Maður spyr sig: Verður sundlauginni lokað? Íþróttahúsum? Snjómokstri hætt? Fjárfestingar og viðhald húsa og gatna sett í lágmark? Uppsagnir? 50 eða 100 manns hjá bænum, kannski enn fleiri? Hækka fasteigagjöld og útsvar, með undanþágu, um 5-6%? Það yrði auðvitað kjaraskerðing sem aðrir íbúar þessa lands þurfa ekki að taka á sig. Bara við. Menn munu hugsa sig um tvisvar að flytja til bæjarins. Hér verður dýrara að búa. Þjónusta verri.
Já, þetta er vissulega enn eitt áfallið sem á okkur dynur, en látum það ekki ganga af okkur dauðum. Vinnum okkur út úr vandanum og vonum að okkur muni farnast vel. En bataferlið verður bæði hægt og sársaukafullt. Því miður.
Skúli Thoroddsen.