Engir fordómar
Í Menningarstefnu Reykjanesbæjar segir m.a. „Reykjanesbær skal verða þekktur sem lista- og menningarbær. Þar skal blómgast öflugt og aðlaðandi lista- og menningarlíf og litið skal á menningarmál sem eitt af meginverkefnum sveitarfélagsins.“
Listasafn Duushúsa í Reykjanesbæ, hefur frá stofnun 1994, vakið verðskuldaða athygli á meðal listamanna og gesta, bæði fyrir hágæða sýningaraðstöðu og góða samvinnu við starfsfólk safnsins og fyrir áhugaverða sýningarstefnu sem m.a. felur í sér aukið samstarf við skólanna, eflingu myndlistarlífs og strangar listrænar kröfur.
Landsbyggðin skartar fjölmörgum stórum og smáum söfnum sem vel flest eru einungis starfrækt yfir sumartímann. Í Reykjanesbæ eru auk Listasafnsins hin gömlu og fallega endurgerðu Duus hús, Byggðasafn og Víkingaheimar, svo dæmi séu tekin, og öll söfn bæjarins eru opin allt árið um kring. Frítt er inn í þau flest og allir velkomnir á opnanirnar sem dreifast yfir árið og eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Barnahátíðin er ein þessara hátíða sem hefur fest sig veglega í sessi sem ein eftirtektarverðasta barnalistahátíð landsins og dregur að sér marga gesti og skólaheimsóknir víðs vegar að.
Ljósanótt vex í sessi ár frá ári og þarf vart að tíunda þau margföldunaráhrif sem hún hefur komið af stað fyrir sveitarfélagið, íbúa þess, verslun og þjónustu. Ferðaþjónustan er allsstaðar á hraðri uppleið og fer vel á því að tengja hana við menningarlífið í bænum, nóg er í boði. Senn líður að opnun hinnar glæsilegu Hljómahallar, sem ætti og hlýtur að verða menningartengdri ferðaþjónustu bæjarins enn frekar til framdráttar því „Bítlabærinn“ býður ekki eingöngu upp á tónlist, heldur allann pakkann.
Reykjanesbær er í nánu samstarfi við um 20 menningarhópa árlega og eru þetta hópar eins og Frumleikhúsið, allir kórar bæjarins, danshópar og áhugafólk um menningu og sögu svo fátt eitt sé nefnt.
Sem formaður Menningarráðs tel ég mig mjög lánsama að hafa fengið að læra og starfa með fjölda hæfileikafólks síðustu fjögur árin og óska ég eftir stuðningi í 5. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 1. mars n.k. svo tryggt verði áframhald á því samstarfi. Með hag bæjarbúa að leiðarljósi segi ég, án allra fordóma, að menningarmál eru og verða eitt af meginverkefnum sveitarfélagsins. Hér er gott að búa og Reykjanesbær rokkar.
Björk Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður Menningarráðs