Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur!
– Breytingar á samgöngum milli Suðurnesja og Reykjavíkur.
Samgöngur í formi rútuferða milli Suðurnesja og Reykjavíkur voru vel skipulagðar og gjöldin þannig að allir gátu nýtt sér þær, sérstaklega námsfólk sem sótti skóla til Reykjavíkur.
Í janúarbyrjun hefur orðið breyting á og ekki virðist hafa verið vel að henni staðið. Margt er þar óljóst og óunnið. Afsláttur skólafólks er ekki klár, kortin ekki tilbúin og ekki unnið að breytingum með tilliti til þess sem fyrir var og gekk vel. Ekki hefur heldur verið leitað álits þeirra sem nýttu sér þessa þjónustu eins og skólafólks.
Dóttir mín hefur undanfarin 2 ár nýtt sér rútuferðir til Reykjavíkur vegna náms í Kvennaskólanum og hafa ferðirnar verið frábærar og vel skipulagðar. Skólafólk hefur getað keypt sér skiptimiðakort, mánaðarkort, þriggja mánaðakort o.s.frv. Allt með góðum námsmannaafslætti. Það var hægt að kaupa 20 skiptamiðakort á kr.13.500 og mánaðarkort á kr. 18.000.
Nú eru framhaldskólarnir byrjaðir eftir jólaleyfi en því miður ekki klárt af hálfu sveitarfélagana hvernig námsmannakortum skal háttað. Fyrstu svör sem SSS gaf foreldrum var að kaupa yrði mánaðarkort á fullu verði hjá Strætó á kr.46.000 fyrir janúar. Nemendur gætu gert það því þeir væru að fá Lín styrkinn sinn sem er kr.75.000 fyrir önnina! Þegar ég fór að kanna málin frekar hjá SSS kom í ljós að verið væri að vinna að þessum málum og að fyrsta niðurstaðan væri sú að kaupa árskort, um kr.190.000 þ.e. kr. 16.000 á mánuði.
Árskort! Skólafólk af Suðurnesjum hafa í flestum tilfellum ekkert að gera við árskort í strætó til Reykjavíkur. Það nýtir sér ferðir í janúar til lok maí og lok ágúst til desember. Það gerir þrjá mánuði á ári sem eru þá vannýttir. Af hverju er ekki hægt að bjóða upp á samskonar þjónustu og það var að fá að geta keypt skiptakort á námsmannaafslætti?
Því miður er svo komið að skólafólk á bílprófsaldri er farið að "grúbba" sig saman í bíla og ætla ekki að nýta sér rúturnar. Það finnst mér mjög miður því ég hef alltaf litið svo á að rútan væri öruggur kostur fyrir mitt barn á einum fjölfarnasta vegi landsins með miklum umferðahraða. Viljum við virkilega hafa fullt af bílum með það dýrmætasta sem við eigum, börnin okkar, á ferðinni hvern einasta dag í öllum veðrum á Reykjanesbrautinni! Þetta þurfum við að sætta okkur við því Strætó og sveitarfélögin á Suðurnesjum eru ekki tilbúin að bjóða uppá fleiri kosti í samgöngukortum, en árskort!
Við þurfum að vekja athygli á þeim málefnum sem skipta okkur máli. Stígum fram og látum í okkur heyra! Við samþykkjum ekki að komið sé svona fram við börnin okkar. Nú er tækifærið fyrir ykkur ráðamenn sveitarfélagana að breyta og koma til móts við fólkið ykkar.
Gróa Axelsdóttir