Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Enginn strætó um helgar!
Sunnudagur 13. nóvember 2005 kl. 03:44

Enginn strætó um helgar!

Eins og svo margir aðrir fluttu ég og fjölskyldan mín í Innri Njarðvík fyrir stuttu síðan. Það urðu smá viðbrigði fyrir börnin því nú þurftu þau að tileinka sér að taka strætó til að komast t.d. í sund og leikfimi. Því fylgir ákveðið frelsi fyrir börnin þegar búið er aðeins fyrir utan hinn hefbundna miðbæ Reykjanesbæjar að geta tileinkað sér að taka strætó ef þeim langar að skreppa á gamlar heimaslóðir.
Því rak mig í rogastand fyrir stuttu þegar eldri sonurinn hugðist heimsækja besta vin sinn á laugardegi inn í Keflavík. Eins og segir í áætlun SBK á heimasíðu fyrirtækisins á strætó að ganga á hálftíma fresti. Sonurinn beið og beið en enginn strætó var sjáanlegur. Því kom hann heim aftur löngu seinna aldeilis örmagna og niðurlútur. Strætóinn kom bara alls ekki. Því þurfti að skutla honum inn í Keflavík svo hann kæmist nú á leiðarenda. Ég hafði samband við skrifstofur SBK og fékk þau svör að strætó gengi bara ekki um helgar. Ég var nú ekki alveg sátt við svarið og þegar ég leitaði eftir ástæðum var mér bent á að þeir hjá bænum stjórnuðu þessu.
Því er mér spurn?
Er þetta þessi góða fría þjónusta sem Sjálfstæðismenn eru alltaf að tala um?
Mikið erum við heppin að þurfa bara ekkert að nota þessar samgöngur um helgar. Hver er ástæðan fyrir þessu? Lítur bæjarstjórnin svo á að þessar almenningssamgöngur séu einungis til að koma börnunum til og frá skóla? Ég get alveg skilið að það þurfi að fækka ferðum um helgar en ekki að ákveðið sé að leggja ferðirnar algjörlega niður.

Með von um úrbætur og svör,
Jóhanna Guðmundsdóttir
Foreldri í Innri Njarðvík
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024