Engin þörf fyrir risa-raflínur
Í fyrradag sögðu Víkurfréttir frá því að tölvufyrirtækið Advania væri byrjað að reisa stórt gagnaver hér á Suðurnesjum. Stór gagnaver nota mikla raforku (gæti þurft 10 megavött, jafnvel meira). Þá dettur einhverjum í hug að þar með verði brýn nauðsyn að tengja Suðurnesin og höfuðborgarsvæði með fyrirhuguðum 220 kílóvolta raflínum, en því er öfugt farið. Eftir því sem fleiri fyrirtæki af þessari stærðargráðu taka til starfa á Suðurnesjum verða þessar risavöxnu raflínur með öllu óþarfar. Hvernig má það vera?
Flutningur raforku – hvert og til hvers?
Undanfarna áratugi hefur ein 130 kílóvolta loftlína tengt Suðurnesin við höfuðborgarsvæðið og gert það svo vel að hér á Suðurnesjum verður aldrei rafmagnslaust. Lína þessi var mikið framfaraskref á sínum tíma og um svipað leyti voru aðrar raflínur hér um slóðir settar í jörð. Þetta er því eina raflínan sem sést hér á Suðurnesjum auk línu sem liggur í framhaldi af henni í jarðvarmavirkjanirnar í Svartsengi og á Reykjanesi. Upphaflega flutti þessi lína raforku til Suðurnesja en eftir að þessar virkjanir voru byggðar hefur hlutverk hennar verið að flytja rafmagn frá Suðurnesjum, enda selur HS-Orka talsverða raforku til málmbræðslanna á Grundartanga í Hvalfirði. En eftir því sem raforkunotkun á Suðurnesjum eykst minnkar sú orka sem raflínan flytur og betra jafnvægi skapast milli framleiðslu og notkunar raforku hér á Reykjanesskaga.
Landsnet er fyrirtæki (að mestu í almannaeigu) sem flytur raforku milli landshluta og rekur raflínur til þeirra nota. Í áratug hefur Landsnet sótt það fast að fá að byggja tvær risastórar raflínur milli Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðar (önnur á reyndar að liggja áfram yfir vatnsverndarvæði höfuðborgarsvæðisins og austur fyrir fjall, en það er önnur saga). Á sama tíma hafa stjórnmálaöfl í Reykjanesbæ og Sveitarfélaginu Garði reynt að fá erlendan auðhring til að reisa gríðarstórt álver í Helguvík, álver sem er enn stærra en álverið á Reyðarfirði sem gleypir þó alla orkuna frá Kárahnjúkavirkjun og meira til.
Áðurnefndar risa-raflínur eru meira en nógu aflmiklar til að fóðra risa-álver í Helguvík.
Nú er óvíst að þetta álver taki nokkurntíma til starfa, jafnvel þótt byrjað hafi verið að byggja yfir það fyrir nokkrum árum. Þær bráðræðis byggingarframkvæmdir stöðvuðust í fyrra og litlar líkur á að þær hefjist á ný. Þessum stóru skálum verður fundið annað hlutverk með tíð og tíma (gætu e.t.v þjónað Helguvíkurhöfn og Keflavíkurflugvelli sem vöruskemmur). Ástæður þess að álverið verður ekki byggt eru hækkandi raforkuverð og lækkandi álverð í heiminum. Ekki hefur tekist að semja um raforku til álversins þrátt fyrir áralangar tilraunir og litlar líkur á að það takist.
Landsnetsmenn hafa aldrei viðurkennt að risavöxnu raflínurnar séu til að þjóna álverinu, heldur séu þær byggðar til að auka öryggi almennra notenda og mæta almennri þróun á raforkumarkaði. Báðar þessar röksemdir eru ótrúverðugar.
Ef raforkuöryggi væri málið, þá væri lagt allt kapp á að setja raflínur um allt land í jörð, einkum í þeim byggðum sem mega árvisst þola rafmagnsleysi dögum og vikum saman þegar raflínur brotna í óveðri. Þetta er mög brýnt verkefni og mikið í húfi fyrir margt fólk og fyrirtæki. Síðustu áratugi hefur raforkuöryggi hvergi verið meira á landinu en hér á Suðurnesjum og því undarlegt að verja milljörðum til að auka öryggið hér.
Fyrrnefnd frétt um nýtt gagnaver við Ásbrú er enn eitt dæmið sem sýnir að þörf fyrir flutning raforku milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins fer ekki vaxandi heldur minnkandi. Að vísu gæti hún aukist á ný ef byggðar verða fleiri jarðvarmavirkjanir yst á Reykjanesskaga, en þó svo verði verður alls engin þörf fyrir svo stórar, afkastamiklar og dýrar raflínur. Núverandi lína myndi að líkindum ráða við það, en til að auka enn öruggið væri skynsamlegt að byggja aðra130 kílóvolta línu og hafa hana jarðstreng í jaðri Reykjanesbrautar eins og nú þegar er heimild fyrir í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga.
Sú framkvæmd hefði þrennt fram yfir fyrirhugaðar tvær nýjar 220 kílóvlta loft-raflínur:
1. Miklu minni sjónmengun.
2. Meira öryggi.
3. Minni kostnað. (ekkert bruðl).
Undarleg þráhyggja
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið eru litlar líkur á að það verði stórfeldir raforkuflutningar milli Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins. Forsvarsmenn Landsnets hafa upplýst að fyrirtækið sé að endurmeta áætlanir sínar um jarðstrengi og kostnað þeim fylgjandi. Því er erfitt að skilja það kapp sem Landsnet leggur á að byggja 220 kílóvolta raflínur.
Enn furðulegra er að ráðherra skuli hafa heimilað eignarnám á þeim jörðum í Sveitarfélaginu Vogum sem ekki hafa viljað afsala landi undir tvær óþarfar risa-loftlínur. Landeigendurnir reyna að fá eignarnáminu hnekkt fyrir dómi. Í því máli hlýtur framsýnt fólk að styðja málstað landeigendanna, óháð því hvað því almennt finnst um einkaeignarrétt á landi.
Þorvaldur Örn Árnason
náttúrufræðingur og íbúi í Vogum.
Frekari upplýsingar t.d.:
http://www.vf.is/frettir/gagnaver-ris-vid-patterson-flugvoll/61875
http://nsve.is/?p=303
http://www.sudvesturlinur.is/is/