Engin óvissa vegna orkuöflunar fyrir álver Norðuráls í Helguvík
Í fréttum síðustu daga hafa verið settar fram fullyrðingar um að óvissu gæti um orkuöflun fyrsta áfanga álvers Norðuráls í Helguvík. Ástæða er til að ítreka að þetta er rangt. Fyrir liggja samningar HS hf, og OR við Norðurál um útvegun orku til álvers í Helguvík og bendir allt til þess að auðvelt verði að standa við samninga. Verða forsendur orkuöflunar HS hf útskýrðar hér á eftir:
HS hf og Orkuveita Reykjavíkur (OR) hafa gert samninga við Norðurál um orkuöflun fyrir álverið og samkvæmt þeim samningi mun OR afhenda 100 MW vegna 1. áfanga og HS hf 100 – 150 MW.
Til að framleiða 120.000 tonn af áli þarf rúmlega 200 MW og 150.000 tonna álver þarf um 250 MW.
HS hf framleiðir nú um 175 MW raforku í orkuverum sínum á Reykjanesi (100 MW) og í Svartsengi (75 MW). Af þessari framleiðslu fara nú um 140 MW frá svæðinu um eina línu sem liggur að Hamranesi við Hafnarfjörð en með álveri og annarri aukningu notkunar á svæðinu myndi flæðið um línuna snúast við.
HS hf. telur að með núverandi verkefnum verði auðvelt að útvega orku samkvæmt umræddum samningi.
Nánar um verkefnin
Nú er unnið að því að bæta við 3. vélinni (50 MW) í orkuverinu á Reykjanesi. Á árinu 2007 voru boraðar þar 2 borholur sem varaholur og vegna mögulegrar stækkunar og eru þær taldar geta gefið um 15 MW. Á þessu ár hefur verið boruð þriðja holan og nú í gufupúðann sem hefur myndast sem heppnaðist mjög vel og er talin geta gefið vel yfir 10 MW. Er nú að hefjast borun annarrar holu í gufupúðann og takist hún jafn vel er gufuöflun fyrir vélina langt komin. Í síðustu viku fóru fram viðræður við framleiðanda túrbínanna og er gert ráð fyrir að gengið verði frá endanlegum samningi í júní/júlí og að túrbínan komi til landsins fyrir árslok 2009 og geti þá hafið framleiðslu í 4. ársfjórðungi 2010.
Þá vinnur HS hf. að því að nýta frekar afallsvökva á Reykjanesi. Nú fara í affallið 6 – 700 l/sek. af rúmlega 200°C heitum vökva þar sem hann er yfirmettaður af steinefnum. HS hf er í samstarfi við 2 erlend sérfræðifyrirtæki til að þróa varmaskipta þannig að unnt verði að nýta allt að 50 MW úr vökvanum. Er þess vænst að á haustdögum liggi fyrir endanleg útfærsla á nýtingu þessarar varmaorku.
Þá ber að nefna að 35 MW frá núverandi virkjunum voru seld á skammtímasamningi sem rennur út á árinu 2011 og þá eru þau laus og til ráðstöfunar. Ekki er ástæða að nýta þurfi þau til að uppfylla umrædda samninga við Norðurál en stendur opið til þess.
Enn einn virkjanakostur eru Eldvörp þar sem boruð var hola 1982. Nú er unnið að breytingum á skipulagi í samstarfi við Grindavíkurbæ þannig að unnt verði að ráðast í frekari boranir og síðan er stefnt að 35 – 50 MW virkjun þar auk framleiðslu á heitu vatni fyrir hitaveitu. Gert er ráð fyrir nýtingu a.m.k. hluta orkunnar í Grindavík þegar fram líða stundir. Viljayfirlýsing liggur fyrir varðandi túrbínu og stefnt að því að ganga frá kaupum um eða fyrir áramót.
Um 2. áfanga Álvers í Helguvík
Varðandi raforku fyrir 2. áfanga álvers í Helguvík, sem gert er ráð fyrir að hefji framleiðslu eftir 6-7 ár þarf 100 – 150 MW, samkvæmt samningi. Auk þess sem að framan greinir hefur HS hf. rannsóknarleyfi á 4 svæðum sem hvert um sig eru talin geta gefið 100 MW. Er nú unnið að skipulagsmálum með viðkomandi sveitarfélögum og þess vænst að rannsóknarboranir geti hafist í lok þessa árs. Með uppbyggingu virkjana í kjölfar rannsókna verða næg tækifæri til annarar atvinnuuppbyggingar meðfram sölu til álversins.
Um flutning orku á milli Suðurnesja og Landsnetsins
Það er algjörlega nauðsynlegt vegna atvinnulífs, almennings og núverandi raforkuframleiðslu að önnur háspennulína verði byggð sem allra fyrst. Sú lína er forsenda þess að viðunandi afhendingaröryggi sé á svæðinu, hvort sem verið er að ræða um netþjónabú eða aðra starfsemi. Fullyrðing um að styrking línunnar sé eingöngu vegna álvers í Helguvík er algjörlega fráleit en hinsvegar má fullyrða að það rekstraróöryggi sem fylgir einni línu hamli frekari vexti atvinnulífs og byggðar á svæðinu.
Um raforkuna frá OR
Samkvæmt upplýsingum frá OR áætlar fyrirtækið að orka til Helguvíkur muni koma frá virkjunum á Hengilssvæðinu. Þar er ráðgert að framleidd verði um 300 MW árið 2010 og 2011. Samningur OR, sem samþykktur er af stjórn fyrirtækisins, gerir því ráð fyrir aðeins þriðjungi þess magns til Helguvíkur. Því er mikið svigrúm fyrir OR að standa við umræddan samning.
Þetta kemur fram í tilkynnnigu frá Hitaveitu Suðurnesja hf.