Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Endurskoða ber samning Reykjanesbæjar við Útlendingastofnun
Föstudagur 30. október 2020 kl. 07:34

Endurskoða ber samning Reykjanesbæjar við Útlendingastofnun

Útlendingastofnun hefur óskað eftir viðræðum við Reykjanesbæ um nýjan þjónustusamning og breytingar á samningsskilmálum vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Nauðsynlegt er að fara yfir reynsluna af fyrri þjónustusamningi áður en lengra verður haldið. Ljóst er að umsækjendum um alþjóðlega vernd fer fjölgandi og ekki hefur dregið úr umsóknum þrátt fyrir veirufaraldurinn og verulegan samdrátt í flugsamgöngum. Þjónustusamningurinn við Útlendingastofnun hefur haft í för með sér álag á ýmsa innviði bæjarins og skiptar skoðanir eru meðal bæjarbúa um þennan samning.

Svæðið mettað af hælisleitendum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði árið 2018 að svæðið væri „mettað af hælisleitendum“. Mikið álag hefur verið á sjúkraflutningamönnum Brunavarna Suðurnesja undanfarnar vikur, sem hafa flutt hælisleitendur frá Leifsstöð í Sóttvarnarhúsið í Reykjavík og hefur þetta álag vakið upp spurningar um hvort dregið hafi úr öryggi bæjarbúa þegar kemur að mikilvægri þjónustu slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Formaður stjórnar Brunavarna Suðurnesja og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, Friðjón Einarsson, gerði lítið úr þessum áhyggjum mínum. Ljóst er að formaðurinn er í litlu sambandi við slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn. Árið 2019 sóttu 867 um hæli. Stefnir í metfjölda umsókna á þessu ári. Meirihluti þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi eru í raun í leit að vinnu eða betri lífskjörum. Það er ekki lögleg ástæða fyrir því að sækja um vernd. Af Norðurlöndunum eru umsóknir um alþjóðlega vernd hlutfallslega flestar á Íslandi, fleiri en í Svíþjóð.

Álag á félagsþjónustuna vegna atvinnuleysis og fjölda hælisleitenda

Móttökukerfi hælisleitenda hér á landi er svo svifaseint að marga mánuði tekur að afgreiða umsóknir og á meðan þarf ríkið að greiða fyrir húsnæði og uppihald hvers hælisleitenda. Mikið atvinnuleysi í Reykjanesbæ kallar á mikið álag á ýmsar stofnanir bæjarins ekki síst félagsþjónustuna. Við það bætist að hælisleitendur þurfa mikla þjónustu og mikla aðstoð fyrstu mánuðina. Önnur sveitarfélög verða einfaldlega að hlaupa undir bagga með Útlendingastofnun á meðan ríkisvaldið tekur ekki á vandanum, sem er hinn langi tími sem tekur að afgreiða umsóknir. Byggja ætti sérstaka móttökustöð fyrir hælisleitendur í námunda við flugvöllinn að fyrirmynd Norðmanna. Þar sem þjónusta yrði veitt á meðan umsóknir yrðu afgreiddar á 48 klukkustundum.

Margrét Þórarinsdóttir,
bæjarfulltrúi Miðflokksins, Reykjanesbæ.