Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Endurreisn íslensks efnahagslífs og samfélags
Föstudagur 3. júlí 2009 kl. 19:51

Endurreisn íslensks efnahagslífs og samfélags


Þessa dagana er unnið að því hörðum höndum að endurreisa íslenskt efnahagslíf.  Gerðar hafa verið nauðsynlegar aðgerðir í ríkisfjármálum og endurskoðun stendur yfir á peningastefnu, unnið er að stöðuleika á vinnumarkaði og að bættum samskiptum við aðrar þjóðir.  Allt þetta þarf að vinna saman til að íslenskt efnahagslíf komist hratt upp úr þeirri lægð sem það er í nú.  Verkefnið er stórt og að sumu leyti snúið en ekki óvinnandi.  Þau skref sem stigin hafa verið eru líkleg til að skila árangri og áætlað er að árið 2013 verði jafnvægi náð. Fjölgun starfa og aðgerðir til að greiða fyrir því að arðvænleg fyrirtæki vilji festa hér rætur ásamt stöðuleikasáttmála á vinnumarkaði eru lykilskref. Auk þess þarf að hvetja í auknum mæli til samvinnu háskóla og atvinnurekenda og nýta rannsóknir til nýsköpunar. Nýsköpun í ríkisrekstri er ekki síst mikilvæg þar sem gera þarf meira fyrir minna fé.

Samskipti Íslands við aðrar þjóðir er einn af hornsteinum endurreisnarinnar. Stjórnvöld verða að semja um skuldbindingar Íslands vegna Icesave. Það er ekki umflúið og aðrir kostir munu aðeins leiða til enn meiri erfiðleika þjóðarinnar. Deilan um Icesave við Breta og Hollendinga er hörð milliríkjadeila. Lausn er í sjónmáli sem gerir ráð fyrir að Ísland fái 7 ára tímabil án þess að leggja til fjármagn og taki síðan á þeirri stöðu sem uppi verður þegar búið er að greiða upp í skuldina með eignum Landsbankans. Hvað þær eignir duga er ekki fullljóst á þessari stundu en þó hafa sérfræðingar sagt að þær dugi í allra minnsta lagi fyrir 75% skuldanna.  Aðrir segja að eignirnar dugi fyrir 95% skuldanna. Vaxtakjörin eru ásættanleg og 7 ára tímabilið verður að nýta af skynsemi og festu í fjármálum ríkis og opinberra aðila. Áföll undanfarinna mánuði hafa grafið undan því trausti sem Íslendingar nutu í alþjóðlegu samstarfi og það traust verðum við að vinna að nýju. Umsókn um aðildarviðræður við Evrópusambandið gefur skýr skilaboð um hvert Íslendingar vilja stefna og á hvaða gildum þeir vilja byggja endurreisn efnahagsins.

Meðfylgjandi er mynd af tannhjólum sem snúast þurfa saman í endurreisninni:




Það er hins vegar ekki nóg að vinna hörðum höndum að endurreisn íslensks efnahagslífs, endurreisn samfélagsins verður að fylgja í kjölfarið.  Skortur á trausti í viðskiptum og virðingu í mannlegum samskiptum og á stjórnskipan okkar er mein í samfélaginu sem vinna verður á. Þar verða stjórnmálamenn sjálfir að vera fremstir í flokki ásamt fjármálafyrirtækjum og ávinna sér traust og virðingu þjóðarinnar að nýju með orðum sínum og athöfnum.  Góður orðstír er mikils virði og við vitum af biturri reynslu hve skjótt hann getur glatast.

Endurreisn samfélagsins og efnahagslífsins þarf að vinnast af fjölda fólks með ólíkan bakgrunn, af báðum kynjum og á öllum aldri.  Það er nauðsynlegt sem mótvægi við það sem lét undan í hruninu. Í þessu ljósi felast í núverandi ástandi margvísleg tækifæri.  Látum kreppuna verða uppsprettu alls konar hugmynda sem hrundið er í framkvæmd. Tökum okkur tíma til að velta því fyrir okkur hvað við getum gert sjálf til að bæta stöðu fjölskyldna okkar og okkar sjálfra. Þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífi eru okkur ekki allar bjargir bannaðar. Við höfum styrkar stoðir til að byggja á og kjark og hugvit sem þarf til að skapa betra samfélag.

Oddný G. Harðardóttir
alþingismaður

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024