Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Endurreisn efnahagslífsins, aðalatriði eða aukaatriði?
Föstudagur 27. febrúar 2009 kl. 15:59

Endurreisn efnahagslífsins, aðalatriði eða aukaatriði?

Staða efnahagsmála varðar alla Íslendinga, öll fyrirtæki, heimili og einstaklinga. Verkefni stjórnvalda er að leggja fram lausnir er miði að því að endurreisa fjárhag fyrirtækja og heimila.  Lækka þarf stýrivexti og  taka á málefnum bankanna því án starfhæfra banka þrífst ekki kröftugt atvinnulíf.  Þessi verkefni eru brýn og mega ekki bíða.

Fjölmiðlar hafa verið uppteknir að því að leita sökudólga og er það skiljanlegt. Rannsóknarnefnd er að störfum við að leita orsaka efnahagshrunsins og sérstakur saksóknari hefur tekið til starfa. Ég vonast til að þessir aðilar vinni hratt og vel en samfélagið verður að einbeita sér að aðalverkefninu,  ná jarðtengingu og leysa hin bláköldu vandamál sem fyrir liggja.

Þrátt fyrir alvarlega stöðu heimilanna og fyrirtækjanna virðist ríkisstjórnin upptekin af allt öðrum og óskyldum hlutum. Stjórnlagaþing, breytingar á kosningalöggjöf og deilur um yfirstjórn Seðlabanka Íslands  eru þau mál sem efst eru á baugi í umræðum í fjölmiðlum og á Alþingi. Ég get ekki skilið hvers vegna menn einbeita sér ekki að aðalatriðunum.  Getur verið að menn treysti sér ekki til að taka ákvarðanir?

Stjórnvöld vinna að því að taka til sín eignir, ríkið er að fá tögl og haldir í öllum fyrirtækjarekstri landsins. Þessi þróun er ekki góð og ljóst að við verðum að finna lausnir til að einstaklingarnir geti áfram rekið sín fyrirtæki. Stjórnmálamenn, embættismenn og opinberir starfsmenn eru ekki þeir aðilar sem munu endurreisa atvinnulífið, þrátt fyrir góðar meiningar. Framtak einstaklinganna er, verður og hefur verið drifkraftur blómlegs atvinnulífs og það er framtak þeirra og kraftur sem verður að fá svigrúm til að endurreisa atvinnulífið.

Ég mæli með því að stjórnvöld einbeiti sér að aðalatriðinu sem er endurreisn efnahagslífsins.

Unnur Brá Konráðsdóttir
er sveitarstjóri í Rangárþingi eystra og gefur kost á sér í 2. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024